Vel sótt vefráðstefna um stafræna umbreytingu

Vefráðstefna sveitarfélaga um stafræna umbreytingu var haldin í morgun, 29. september. Ráðstefnan var einstaklega vel sótt en ætla má að nærri 700 manns hafi fylgst með streyminu.

Á vefráðstefnunni var sagt frá verkefnum sem sveitarfélögin vilja vinna að í samvinnu í framhaldi könnunar þess efnis sem framkvæmd var í sumar. Á ráðstefnunni var kynnt hvernig umsókn um fjárhagsaðstoð á Ísland.is mun virka fyrir sveitarfélög og umsækjendur, og hvernig tæknileg högun verður gagnvart sveitarfélögum. 

Þá sagði Rasmus Frey framkvæmdastjóri OS2, samstarfsvettvangs sveitarfélaga í Danmörku frá því hvernig dönsk sveitarfélög hafa deilt smærri opnum lausnum (e. open source) sín á milli og aukið hraða og styrk sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu. Sveitarfélög sögðu einnig frá því hvernig þau hafa nýtt sér samstarfið til að hraða stafrænni umbreytingu sinni. Loks var nýtt lausnatorg á stafraen.sveitarfelog.is kynnt og hvernig stafrænt þróunarteymi sambandsins ætlar sér að vinna á næsta ári með sveitarfélögum.

Upptaka af fundinum verður aðgengileg á vef sambandsins og vef stafrænna sveitarfélaga.