Verulegar athugasemdir gerðar við drög að heilbrigðisstefnu

Samband íslenskra sveitarfélaga gerir verulegar athugasemdir við drög að nýrri heilbrigðisstefnu og lítur svo á, að drögin séu umræðuskjal, sem marki einungis upphafspunkt í endurnýjuðu stefnumótunarferli. Langur vegur sé frá því að heildstæð stefna hafi verið mörkuð með stefnudrögunum.

Samband íslenskra sveitarfélaga gerir verulegar athugasemdir við drög að nýrri heilbrigðisstefnu og lítur svo á, að drögin séu umræðuskjal, sem marki einungis upphafspunkt í endurnýjuðu stefnumótunarferli. Langur vegur sé frá því að heildstæð stefna hafi verið mörkuð með stefnudrögunum.

Þá eru athugasemdir einnig gerðar við að samráð hafi ekki verið haft við sveitarfélögin um málið. Góð og gegn markmið um aukna samvinnu á milli heilbrigðiskerfisins og sveitarfélaga geti ekki orðið að veruleika nema með virku samtali.

Meginathugasemdir sambandsins lúta þó að því sem vantar í stefnudrögin. Umfjöllun um öldrunarþjónustu njóti sem dæmi afar takmarkaðrar athygli, enda þótt sá málaflokkur taki nálægt fjórðu hverja krónu sem rennur til heilbrigðiskerfisins.

Er í þessu sambandi m.a. bent á, að meginþáttur í einstaklingsmiðaðri heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni sé að eldri einstaklingar fái stuðning til þess að búa á eigin heimili. Sveitarfélögin eru sammála þessum áherslum og er fjallað ítarlega um málefnið í stefnumörkun sambandsins 2018-2022. Eins og þar kemur fram, er öflug heimahjúkrun forsenda þess að heimaþjónusta virki. Engu að síður er vægi heimahjúkrunar í heilbrigðiskerfinu allt of lítið. 

Einboðið er því að mati sambandsins, að athyglin beinist að heilbrigðisþætti öldrunarþjónustu þegar  í næsta skrefi stefnumótunarferlisins. Þá þarf einnig að bregðast við krónískri vanfjármögnun, eins og sambandið bendir á í umsögn sinni um frumvarp til fjárlaga 2019

Heilbrigðisstefna verður enn fremur að vera mjög skýr um að notendur sem þess þurfa geti fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu inn á heimili sitt. Afar veigamikil rök, sem snúa bæði að hagkvæmni og rétti sjúklinga, styðja því, að mati sambandsins, að stefna verði mörkuð í þessa veru. 

Þá fagnar sambandið þeirri áherslu sem lögð er í stefnudrögunum á þróun fjarheilbrigðisþjónustu, en minnir jafnframt á að þar séu ýmis verkefni óunnin, þ. á m. laga- og reglugerðarrammi vegna slíkrar þjónustu. 

Sambandið hefur óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra vegna málsins.

Umsagnarfresti um stefnudrögin lauk í gær, þann 19. desember. Nálgast má umsögn sambandsins og umrædd stefnudrög hér að neðan. Aðrar umsagnir um málið eru aðgengilegar á samráðsgátt stjórnarráðsins.