Vanfjármögnun er meginorsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst á Hilton Reykjavík Nordica í morgun. Þungur tónn er í mörgum þátttakendum og ljóst að fjárhagsstaða margra sveitarfélaga er erfið.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, við upphaf fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2022.

„Vanfjármögnun ríkisins á málaflokki fatlaðs fólks er meginorsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga.“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, í setningarræðu sinni.

Stjórn sambandsins kallar eftir því að fulltrúar ríkisins viðurkenni að sú þjónusta sem ríki og sveitarfélög veita íbúum þessa lands sameiginlega eigi að fjármagna á sanngjarnan hátt. Síffeldum deilum milli aðila um kostnaðarábyrgð og fjármögnum verður að linna. Við erum ekki andstæðingar – við erum samherjar og berum sameiginlega ábyrgð gagnvart landsmönnum öllum og öllu því fólki sem þarf á þjónustunni að halda.

Heiðu varð tíðrætt um samskipti ríkis og sveitarfélaga, ekki aðeins hvað varðar þjónustu við fatlað fólk heldur einnig húsnæðismálin og móttöku fólks í leit að alþjóðlegri vernd. Sagðist hún vera ánægð með að tekið sé á móti fleiri flóttamönnum en í því felist ein stærsta áskorun sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Eins og staðan er núna hefur ekkert sveitarfélag undirritað samkomulag sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og sambandið skrifuðu undir í sumar. Þar væri aðallega tvennt sem stæði út af.

Það er annars vegar að ábyrgjast húsnæði fyrir þúsundir nýrra íbúa á skömmum tíma og hinsvegar að það vantar fjármuni til að standa undir þjónustu við börn ekki síst inn í leik- og grunnskólum. ... Sveitarfélög vilja fleiri íbúa, fyrirtæki vantar starfsfólk, hingað flytur fólk sem vill fá tækifæri til að eiga venjulegan dag, lifa og starfa – veitum þessu fólki það tækifæri þá verður íslenskt samfélag ríkara og betra.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra flytur sveitarstjórnarfólki ávarp á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2022.

Fjölþættur vandi sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra ræddi m.a. um fjárhagsvanda sveitarfélaga og sagði hann fjölþættari en svo að aðeins væri hægt að tengja hann málefnum fatlaðs fólks. Benti hann meðal annars á að töluverður vöxtur hefði verið í tekjum sveitarfélaga frá árinu 2014 eða um 31% á föstu verðlagi á meðan tekjur ríkissjóðs dregist á sama tíma saman um 1%. Sigurður sagði að til greina gæti komið að hækka útsvarshlutfallið enn frekar á móti samsvarandi lækkun tekjuskattshlutfallsins sem næmi umtalsverðum hluta vandans í því skyni að gera sveitarfélögum kleift að standa við meginmarkmið um þróun afkomu og skulda sem gert var samkomulag um í aðdraganda gildandi fjármálaáætlunar.

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var í beinu streymi frá Hilton í dag. Henni verður fram haldið í fyrramálið með tveimur málstofum sem einnig verða í beinu streymi.

Dagskrá og útsending /upptaka frá fjármálaráðstefnu 2022.