Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í dag um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Markmiðið er halda áfram þeirri miklu uppbyggingu innviða sem hafin er til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tilkynntu í dag um úthlutun til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið. Markmiðið er halda áfram þeirri miklu uppbyggingu innviða sem hafin er til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða.
Saman tilkynntu ráðherrarnir um úthlutun á rúmum 3,5 milljörðum króna á næstu þremur árum. Á sama tíma er áætlað að verja 1,3 milljörðum króna sérstaklega til landvörslu.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir að þessu sinni styrki til 40 verkefna og nemur heildarstyrkupphæðin alls 505 m.kr. Hæsti styrkurinn fer til innviðauppbyggingar við Goðafoss sem er nú kominn á lokastig eftir markvisst uppbyggingarstarf á undanförnum árum. Önnur verkefni sem fá hærri en 30 m.kr. styrki eru Breiðin á Akranesi, Laufskálavarða í Álftaveri, Reykjadalur og Hveradalir í Ölfusi.
Gert er ráð fyrir ríflega 3 ma.kr. framlagi til þriggja ára verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2019-2021. Þar með bætist rúmur milljarður króna við þá áætlun sem kynnt var í fyrra. Í áætluninni nú er ekki einungis horft til stakra staði í náttúrunni heldur lögð áhersla á heildræna nálgun í gegnum svæðisheildir og skilgreindar leiðir sem liggja á milli staða. Hvítserkur við Vatnsnes er dæmi um stað þar sem bæta á öryggi gesta og aðgengi niður í fjöruna. Bætt aðgengi við þrjá manngerða hella við Ægissíðu á bökkum Ytri-Rangár er dæmi um svæðisheild. Þá er áætlað að ráðast í fyrsta áfanga hjólaleiðar við Jökulsárgljúfur sem liggur frá Ásbyrgi í átt að Dettifossi.
Auk þeirra ráðstafana sem gerðar eru með úthlutun Landsáætlunar og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er áætlað að verja um 1,3 ma.kr. sérstaklega til landvörslu á næstu þremur árum. Þetta er gert til að tryggja ráðningu heilsársstarfsmanna sem og mönnun á háannatíma á fjölsóttum stöðum og friðlýstum svæðum.
Í yfirliti
um úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða kemur fram á bls. 5-8 hvaða
sveitarfélög fá styrk úr framkvæmdasjóðnum að þessu sinni. Á meðal nýrra
verkefna sem fá styrk má m.a. nefna útsýnispall á Bolafjalli, stígagerð við
Valahnjúk, göngustíga við Kálfshamarsvík, útivistarstíga í Þjórsárdal og gönguleið
við Arnarker. Alls eru sveitarfélagaverkefnin 20 talsins að þessu sinni en
hæstu styrki fá Þingeyjarsveit til að ljúka framkvæmdum við Goðafoss,
Akraneskaupstaður vegna framhalds framkvæmda við Breiðina á Akranesi og
Sveitarfélagið Ölfus til að bæta aðstöðu og stígakerfi í Reykjadal.
Þá er í verkefnaáætlun landsáætlunar um uppbyggingu innviða er að stærstum hluta verið að ráðstafa fjármunum til ríkisstofnana, þ.e. þjóðgarða, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar, Skógræktarinnar og fleiri stofnana. Nokkur sveitarfélög fá þó framlög á þeirri áætlun og má nefna Borgarbyggð vegna salernisaðstöðu og bílastæðis við Glanna-Paradísarlaut, Fljótsdalshrepp vegna stækkunar bílastæðis og viðhalds göngustíga við Hengifoss, Hafnarfjarðarkaupstað vegna Krýsuvíkurbjargs og Reykjanes geopark vegna verkefna við Eldvörp, Gunnuhver og Kinnargjá. Einnig er stefnt að uppbyggingu við Teigarhorn í samstarfi Djúpavogshrepps, Umhverfisstofnunar og Minjastofnunar
Á síðu Stjórnarráðs Íslands má nálgast nánari upplýsingar um þessar úthlutanir, þ.á m. yfirlitskort þar sem hægt er að skoða nánar þá staði sem úthlutað er til að þessu sinni og dreifingu þeirra.