Úthlutanir til ferðamannastaða – hæsti styrkur til Bolungarvíkur

Alls bárust 134 umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðammastaða fyrir um 2,3 milljarða króna. Úthlutað var 502 milljónum króna til 33 verkefna um land allt. Hæsta styrkinn hlaut Bolungarvíkurkaupstaður vegna útsýnispalls á Bolafjalli 160 milljónir.

Alls bárust 134 umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir um 2,3 milljarða króna. Úthlutað var 502 milljónum króna til 33 verkefna um land allt. Hæsta styrkinn hlaut Bolungarvíkurkaupstaður vegna útsýnispalls á Bolafjalli 160 milljónir króna.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í dag grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020. Samtals er nú úthlutað rúmum 1,5 milljarði króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum. Hér má sjá upptöku frá fundinum í morgun.

Frá síðustu úthlutun hefur mikill árangur náðst í að auka og bæta við innviði um land allt og þannig getu þeirra svæða sem um ræðir til að taka við ferðmönnum. Þar má nefna áframhaldandi uppbyggingu gönguleiða, útsýnispalla og bílastæða innan Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, viðgerðir á hleðslum við Snorralaug í Reykholti og smíði á stigum og pöllum við Stuðlagil, sem og við Hornbjargsvita til að bæta öryggi ferðamanna og vernda náttúru auk fjölda annarra verkefna.