Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu um að fella úr gildi ákvörðun Dalabyggðar um álagningu förgunargjalds vegna dýrahræja.
Málið snérist um að snúa við ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 10. júní 2021 um að leggja förgunargjald vegna dýrahræja á kæranda fyrir árið 2021 vegna fasteignarinnar Hofakurs. Fram kemur í úrskurðinum að nefndin telur að sveitarstjórn hafi nokkurt svigrúm til útfærslu í gjaldskrárgerð. Fyrir liggur að í lok þessa árs mun innheimta vegna meðhöndlunar úrgangs taka breytingum vegna nýlegra breytinga á lögum nr. 22/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Óljóst er að hversu miklu leyti þær breytingar munu hafa áhrif á svigrúm sveitarfélaga í gjaldskrárgerð fyrir meðhöndlun úrgangs.
Umrædd gjaldskrá
Í gjaldskrá sveitarfélagsins fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa í Dalabyggð kemur fram í 2. gr. að förgunargjaldið byggist á fjölda búfjár á lögbýlum í sveitarfélaginu miðað við búfjárskýrslur Matvælastofnunar og verði innheimt með fasteignagjöldum. Miðað sé við að dýrahræ séu sótt til bænda og annarra búfjáreigenda með skráðan bústofn og komið í viðeigandi meðhöndlun. Farin verði ein ferð í viku að jafnaði. Í 3. gr. gjaldskrárinnar segir að gjald vegna hirðingar og eyðingar á dýrahræjum sé innheimt af bújörðum, hesthúsum og öðrum aðilum sem séu með skráðan bústofn.
Málsrök kæranda
Rök kæranda voru þau að umrædd gjaldskrá mismuni búfjáreigendum og jafnræðisregla sé þar með brotin. Sem dæmi greiði búfjáreigandi með 81 kind eða ígildi þeirra 67.100 kr. á ári, eða 828,4 kr. á hvern grip. Búfjáreigandi með 400 kindur eða ígildi þeirra greiði einnig 67.100 kr. á ári, eða 167,75 kr. á hvern grip. Báðir eigendur lendi í hæsta gjaldflokki. Benda megi á dæmi þess að kostnaði sé dreift á búfjáreigendur eftir fjölda, t.d. vegna fjallskila.
Úrskurður nefndarinnar
Í úrskurði úrskurðarnefndar kemur fram að gjaldskráin var birt í B-deild í samræmi við kröfur 5. mgr. 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Nefndin segir að af yfirliti yfir kostnað og tekjur vegna gjaldanna, sem sveitarfélagið lét í té, sé ljóst að innheimt gjöld í sveitarfélaginu séu lægri en kostnaður sveitarfélagsins af veittri þjónustu. Þá hafi sveitarfélagið einnig veitt rökstuddar upplýsingar um hvernig gjaldflokkarnir voru ákveðnir með hliðsjón af rekstaráætlun verkefnisins. Nefndin telur að sveitarstjórn hafi nokkurt svigrúm til að meta hvað henti best innan marka sveitarfélagsins hverju sinni, að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir setur.
Í úrskurðinum segir að af hálfu Dalabyggðar hafi komið fram að þyngst vegi kostnaður vegna urðunar sem miðist við kílóverð og verður ekki annað séð en að gjaldflokkar taki mið af því. Einnig hafi verið bent á að ekki eingöngu stærð búa hafi áhrif heldur sé kostnaður af flutningum í stóru en fámennu sveitarfélagi verulegur þáttur í þjónustunni. Loks sé mjög sveiflukennt hversu mikið magn komi frá hverjum gjaldanda. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja að sveitarstjórn hafi verið innan þeirra marka sem kveðið er á um í 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Varðandi rök kæranda um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá segir í úrskurði nefndarinnar að sömu reglur gildi um alla þá aðila sem eins fer um samkvæmt gjaldskránni. Þá er almennt heimilt að haga gjaldtöku þjónustugjalda svo að um sé að ræða jafnaðargjald, eins og áður er fram komið. Á það ekki síst við að mati úrskurðarnefndarinnar þegar örðugleikum er háð að áætla það magn úrgangs sem fellur til hjá hverjum og einum vegna breytileika þess. Því fellst nefndin ekki á á nefnda málsástæðu kæranda.
Innleiðing borgaðu þegar þú hendir
Þann 1. janúar 2023 koma til framkvæmda breytingar á lögum nr. 22/2003 um meðhöndlun úrgangs um að innheimta fyrir meðhöndlun úrgangs skuli vera sem næst raunkostnaði niður á hvern aðila. Slík aðgerð við innheimtu byggist á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir það sem hann hendir (e. Pay as you throw). Gerð er krafa um að fast gjald, sem flest sveitarfélög leggja á í dag, takmarkist við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það. Lögin hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin í landinu og munu þau þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Ekki er að fullu ljóst að hversu miklu leyti þessar breytingar munu hafa áhrif á svigrúm sveitarfélaga í gjaldskrárgerð m.a. til að horfa til annarra þátta en magns. Með styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hefur sambandið ráðist í gerð greiningar á útfærslum á innleiðingu ,,Borgað þegar hent er“ og er niðurstöðu úr þeirri greinungu að vænta í janúar.
Sjá úrskurðinn hér: https://uua.is/urleits/89-2021-hofakur/