,,Úr viðjum plastsins“

Aðgerðaáætlun í plastmálefnum hefur verið gefin út undir heitinu ,,Úr viðjum plastsins“.

Aðgerðaáætlunin inniber 18 aðgerðir sem skiptast í þrjá flokka. Í fyrsta lagi aðgerðir sem miða að því að draga úr notkun plasts, í öðru lagi aðgerðir sem talið er að auki endurvinnslu á plasti og að síðustu aðgerðir til að sporna við plastmengun í hafi. Tillaga að aðgerðaáætlun í plastmálefnum var birt í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar í lok október 2018 og byggðu á tillögum samráðsvettvangs um aðgerðaáætlun í plastmálefnum sem ráðherra skipaði árið 2018. Sambandið veitti umsögn um tillögurnar og gerði þar ýmsar veigamiklar athugasemdir. Í endanlegri áætlun hefur verið brugðist við mörgum þeirra ábendinga.

Helmingur aðgerða þegar hafinn eða lokið

Rúmlega helmingi þeirra 18 aðgerða sem tilgreindar eru í áætluninni er þegar lokið eða innleiðing þeirra hafin. Margar þeirra snúa að því að draga úr notkun plasts. Þar á meðal er bann við notkun burðarpoka úr plasti en Alþingi samþykkti í maí 2019 að frá og með áramótum 2020 verði óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti í verslunum. Einnig hefur Alþingi samþykkt að markaðssetningu plastvara sem oftast eru einungis notaðar einu sinni, svo sem sogrör, bómullarpinnar og hnífapör, verði hætt 3. júlí 2021.

Jafnframt hefur Matvælastofnun lokið við að útbúa leiðbeiningar til verslana og veitingastaða um afgreiðslu matvæla í ílát viðskiptavina. Einnig er lokið aðgerð sem miðar að því sporna við plastmengun í hafi með því að auka rekjanleika veiðarfæra og stuðla að meiri endurheimt tapaðra veiðarfæra. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti reglugerð í vor þar sem mælt er fyrir að merkja skuli á greinilegan hátt veiðarfæri og annan tengdan búnað auk þess sem leit að töpuðum veiðarfærum er gerð að skyldu.

Umsögn sambandsins

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í desember 2018 er tekið undir mikilvægi þess að vinna að samdrætti í plastnotkun, bæta endurvinnslu og takast á við plastmengun í hafi. Þó var bent á að sumar tillagnanna gætu haft mikil fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélögin og mikilvægt væri að fram færi vönduð kostnaðar- og ábatagreining áður en endanleg aðgerðaáætlun yrði samþykkt af ráðherra. Einnig var bent á að umfjöllun um samsettar umbúðir, sem eru að stærstum hluta óendurvinnanlegar, vantaði í áætlunina og að skoða þyrfti þörf á að útvíkka hlutverk Úrvinnslusjóðs þannig að úrvinnslugjald væri lagt á fleiri plastvörur og fleiri vöruflokka, s.s. glerumbúðir.

Sambandið lagði í umsögn sinni áherslu á að fyrirkomulag úrgangsflokkunar yrði áfram í höndum sveitarfélaga en sagði jafnframt að eðlilegt væri að sveitarfélög ynnu í meira mæli saman að þessum málum. Sambandið fagnaði fyrirætlunum um auknar rannsóknir á áhrifum plastmengunar á lífríki og markvisst yrði unnið að hreinsun stranda og benti á í því samhengi að tilefni væri til að gera úttekt á virkni núverandi framleiðendaábyrgðar á veiðarfærum. Kallaði sambandið jafnframt eftir aðkomu ríkisins að fjármögnun ef gerðar yrðu auknar kröfur til fráveitukerfa sveitarfélaga með það að markmiði að bæta skolphreinsun og lágmarka örplastmengun frá fráveitum.

Plastmálefni á borði sveitarfélaga á næstunni

Mörg sveitarfélög hafa lagt verkefninu Plastlaus september lið og taka virkan þátt í að ýta undir rétta notkun og meðhöndlun á plasti. Sveitarfélög gegna einnig lykilhlutverki þegar kemur að flokkun plasts og skil til endurvinnslu og í aðgerðaáætlun í plastmálefnum kemur fram að undirbúningur er hafinn við að innleiða skyldu til samræmdrar flokkunnar úrgangs og að auðvelda eigi flokkun úrgangs með samræmdum merkingum. Ráðherra hyggst leggja fram frumvarp þess efnis á vorþingi og verður útfærslan vonandi tengd álagningu úrvinnslugjalds á fleiri vörur úr plasti eins og ætlunin er að gera úttekt á samkvæmt áætluninni.

Sveitarfélög hafa einnig á sinni könnu hreinsun opinna svæða og koma þannig í veg fyrir að plast og annar úrgangur berist til hafs. Í aðgerðaáætluninni er lagt upp með að ráðist verði í 3-5 ára allsherjarhreinsunarátak á strandlengju Íslands af plasti og öðrum úrgangi fyrir 150 m.kr. Því er beint til sveitarfélaga í áætluninni að þau styðji við aðgerðina með því að taka við úrgangnum sem safnast án endurgjalds. Ekki kemur fram hvort þau skuli standa skil á urðunarskatti fyrir það sem safnast en samkvæmt nýsamþykkti Aðgerðaætlun stjórnvalda í loftslagsmálum segir frá vinnu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins við gerð frumvarps til breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta þar sem innheimta urðunarskatts verður lögfest.   Í nýsamþykktri áætlun er einnig ætlunin að draga úr plasti í hafi með því að bæta skolphreinsun og hefur verið komið á móts við óskir sveitarfélaganna um aðkomu ríkisins að fjármögnun slíkra verkefna eins og fram kom í umsögn sambandsins frá 2018. Með breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna frá því í júní sl. verður á árunum 2020-2030 veitt árlegu framlagi úr ríkissjóði til fráveituframkvæmda á vegum sveitarfélaga. Þegar hefur verið tryggður 200 m.kr. stuðningur ríkisins á árinu 2020 og mun ráðherra auglýsa eftir umsóknum frá sveitarfélögum á næstunni.