Unnið að gerð verkfærakistu sveitarfélaga í loftslagsmálum

Samstarfsvettvangur sveitarfélaga um loftslagsmál og Heimsmarkmiðin var stofnaður 19. júní 2019. Í dag hafa hátt í 50 sveitarfélög tekið undir stofnyfirlýsingu vettvangsins og þar eru skráðir um 80 tengiliðir sem fá boð á fundi vettvangsins.

Um mitt síðasta ár varð sveitarfélögum gert skylt að útbúa loftslagsstefnu í sínum rekstri en síðustu ár hafa mörg sveitarfélög lagt í ýmsa vinnu tengt loftslagsmálum. Sem dæmi eru nokkur íslensk sveitarfélög aðilar að Covenant of Mayors for Climate and Energy sem eru stærstu alþjóðlegu samtök svæðisbundinna stjórnvalda í loftslagsmálum.  

Til að vinna sérstaklega með loftslagsmál á sveitarstjórnarstiginu var stofnaður vinnuhópur út frá samstarfsvettvangnum í september í fyrra. Vinnuhópurinn kom meðal annars að gerð umsóknar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar og Landverndar um styrk í Loftslagssjóð í janúar 2020 til að vinna að því að efla og styðja íslensk sveitarfélög til að vinn aðgerðamiðaða stefnumótun í loftslagsmálum. Verkefnið fékk ekki fjármögnun úr sjóðnum en í gegnum nýlega samþykkta Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur verkefnið hlotið fjármagn.

Verkefnið hefur heitið Verkfærakista sveitarfélaga í loftslagsmálum og er ætlað að efla og styðja íslensk sveitarfélög til að vinna aðgerðamiðaða stefnumótun í loftslagsmálum, fylgja henni eftir og vakta árangur sinn. Sveitarfélög munu einnig geta kortlagt árangursríkar aðgerðir til að draga úr losun frá sínum rekstri. Stofnaður hefur verið stýrihópur um verkefnið sem í sitja fulltrúar sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar og Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Verkefnið verður unnið í góðu samráði við sveitarfélögin, þar á meðal í gegnum Samstarfsvettvang sveitarfélaga um loftslagsmál og Heimsmarkmiðin og verður áðurnefndur vinnuhópur til ráðgjafar við gerð verkfærakistunnar. Vinnan fór af stað í september síðastliðnum og stefnt er að því að opna verkfærakistuna í maí 2021.

Þann 19. október næstkomandi kl. 8:30-10:00 verður fjórði tengiliðafundur samstarfsvettvangsins undir yfirskriftinni Loftslagsmál – Hvaða verkfæri þurfa sveitarfélögin til að draga úr losun?. Fundurinn er haldinn í tilefni þess að fjármögnun hefur fengist til að styðja og efla sveitarfélögin við gerð loftslagsáætlana.

Dagskrá og skráning á fundinn 19. október.