Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí 2022

Í sveitarfélögum er víðast hvar hafinn undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar. Í stærri sveitarfélögum standa yfir prófkjör og víða er jafnframt unnið að myndun framboðslista.

Einnig er unnið miðlægt hjá stofnunum sem koma að framkvæmd kosninganna og hafa fulltrúar sambandsins átt fundi með dómsmálaráðuneyti, Landskjörstjórn, Þjóðskrá og Reykjavíkurborg um ýmis hagnýt atriði, s.s. um uppfærslu á vefnum kosning.is með hliðsjón af nýjum kosningalögum.

Til að upplýsa sveitarstjórnarfólk um stöðu mála við undirbúning kosninganna á landsvísu þykir rétt að setja fram nokkrar ábendingar:

1.Á Alþingi er til umfjöllunar frumvarp um breytingar á kosningalögum nr. 112/2021. Helsti ágalli laganna snýr að misræmi í dagsetningum hvað varðar viðmiðunardag kjörskrár og hvenær framboð skuli tilkynnt. Í frumvarpinu er lagt til að þessar viðmiðunardagsetningar breytist sem gerir það að verkum við sveitarstjórnarkosningarnar á komandi vori að:

a. viðmiðunardagur kjörskrár verður kl. 12 á hádegi miðvikudaginn 6. apríl 2022.

b. umsóknir íslenskra námsmanna á Norðurlöndum þurfa að berast til Þjóðskrár Íslands eigi síðar en 4. apríl 2022

c. eigi síðar en föstudaginn 8. apríl 2022 skal Þjóðskrá Íslands auglýsa að kjörskrár hafi verið gerðar.

Lagabreytingin hefur ekki áhrif á það hvenær framboðsfrestur rennur út, sem er á hádegi föstudaginn 8. apríl, eða hvenær yfirkjörstjórnir skulu auglýsa framboðslista.
2.Af samþykkt kosningalaga á sl. ári leiða ýmsar aðrar breytingar á framkvæmd kosninga.

a. Meðal annars fer ný stofnun, Landskjörstjórn, með samræmingarhlutverk við kosningar í stað dómsmálaráðuneytis áður.

b. Þjóðskrá Íslands annast gerð kjörskrár og verður hún send sveitarfélögunum með rafrænum hætti. Sveitarfélög mun sjálf þurfa að prenta kjörskrána út. Leiðréttingar á kjörskrá eru einnig gerðar hjá Þjóðskrá, sem mun þá senda þær til sveitarfélaganna. Þjóðskrá stefnir á að stenda kjörskrá í gegnum Signet Transfer sem er örugg leið til að senda gögn á milli aðila. Sveitarfélög munu fá nánari upplýsingar um þetta með frekari leiðbeiningum. Leiðréttingar á kjörskrá verða sendar með sama hætti.Aðkoma sveitarstjórna að kjörskrá er því ekki önnur en sú að þær skipta sveitarfélagi í kjördeildir, sjá um að láta prenta kjörskrána og færa inn þær leiðréttingar sem Þjóðskrá gerir.

c. Einnig hefur verið stofnuð úrskurðarnefnd kosningamála og skal beina kærum um framkvæmd kosninganna til nefndarinnar innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga. Úrskurðarnefndin fjallar einnig um kærur á ákvörðunum Þjóðskrár um leiðréttingar á kjörskrá.
3.Stefnt er að því að opna vefinn kosning.is um leið og framangreindar lagabreytingar hafa hlotið samþykki á Alþingi og staðfestingu forseta Íslands. Á kosningavefnum verður að finna helstu upplýsingar fyrir kjósendur, frambjóðendur og kjörstjórnir, líkt og verið hefur.

Leitast verður við að vekja sérstaka athygli á því að nú gilda í fyrsta sinn sömu reglur um kosningarrétt íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Allir ríkisborgarar þessara landa sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 14. maí 2022, og sem skráðir eru með lögheimili í sveitarfélagi á Íslandi 38 dögum fyrir kjördag, þ.e. 6. apríl 2022, njóta því kosningarréttar og eru jafnframt kjörgengir í sveitarstjórnarkosningum.

Aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt njóta sömu réttinda. (Áður var miðað við fimm ára samfellda búsetu).
4.Í 139. gr. kosningalaga er kveðið á um að kostnaður við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga, þ.m.t. kostnaður við kjörgögn og áhöld er landskjörstjórn lætur í té og vegna þeirra verkefna sem Þjóðskrá Íslands fer með, greiðist af sveitarfélögum nema annað sé tekið fram í lögum þessum.

Fundað hefur verið um framkvæmd þessarar greinar og mun niðurstaða um kostnaðarskiptingu og hvaða kostnaður falli undir lagagreinina vonandi liggja fyrir innan fárra vikna.
5.Von er á nokkrum fjölda reglugerða frá dómsmálaráðuneytinu sem nauðsynlegar eru fyrir framkvæmd kosninganna og kveðið er á um í kosningalögum. Ber þar helst að nefna reglugerðir um kjörgögn og um meðmælendur og framboðslista.
6.Tilraunaverkefni um rafræna kjörskrá í einstökum sveitarfélögum hefur ekki verið sett á laggirnar.

Nánari upplýsingar um undirbúning kosninganna af hálfu sambandsins veitir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs sambandsins.