Þann 1. apríl sl. tóku gildi lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, nr. 91/2023. Við gildistökuna var Menntamálastofnun lögð niður og færðust ýmis verkefni sem áður voru hjá Menntamálastofnun yfir til mennta- og barnamálaráðuneytisins.
Meðal þeirra verkefna sem færðust yfir er veiting undanþága við ráðningar lausráðinna starfsmanna til kennslustarfa, sbr. lög nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Í dreifibréfi mennta- og barnamálaráðuneytisins, dags. 2. apríl 2024, er lýst því verklagi sem skólastjórnendum ber að fylgja við lausráðningar starfsmanna til kennslustarfa í grunn- og framhaldsskóla. Verklagið hefur verið uppfært frá fyrra ári. Eru allir skólastjórnendur hvattir til þess að kynna sér efni dreifibréfsins vel.
Vakin er athygli á þeirri breytingu að tilkynningar um ráðningar umsækjenda sem leggja stund á nám til kennsluréttinda fara nú í gegnum eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Umsóknir um undanþágur eru með sama fyrirkomulagi og verið hefur í gegnum Ísland.is.
- Sótt er um undanþáguheimild fyrir grunnskóla hér.
- Sótt er um undanþáguheimild fyrir framhaldsskóla hér.
- Tilkynnt er um ráðningu kennsluréttindanema hér.
Í fréttatilkynningu á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins má nálgast upplýsingar um þau verkefni sem nú hafa verið færð til ráðuneytisins.