Undanfarandi markaðskönnun vegna fyrirhugaðs útboðs á orkuskiptum dráttarbáts

Á næstu vikum munu Ríkiskaup, í samvinnu við Ísafjarðarhöfn og Bláma, ráðast í undanfarandi markaðskönnun (e. RFI) á Evrópska efnahagssvæðinu, til að kanna fýsileika þess að kaupa orkuskiptan dráttarbát fyrir Ísafjarðarhöfn.

Dráttarbátur Hafna Ísafjarðarbæjar.

Markaðskönnun þessi byggist á heimild í 45. gr. laga um opinber Innkaup nr. 120/2016 og markmið hennar er að undirbúa innkaup og upplýsa fyrirtæki um áformuð innkaup og kröfur varðandi þau, afla upplýsinga um markaðinn og fá ráðgjöf t.a.m. um fýsileika orkuskiptra dráttarbáta, þó án þess að raska samkeppni á markaðnum. Í slíkri markaðskönnun felst þó ekki skuldbinding um að fara í útboð.

Til að ná fram sem mestri hagkvæmni og virði fyrir sveitarfélög landsins köllum við eftir því að þau sveitar- og bæjarfélög sem hyggjast fjárfesta í dráttarbát á næstu 4-36 mánuðum og hafa áhuga á samstarfi við útboð hafi samband við sérfræðinga Ríkiskaupa og lýsi yfir áhuga (utbod@rikiskaup.is) fyrir 10. desember nk.

Vakin er athygli á því að þótt sveitarfélög fari sameiginlega í útboð á dráttarbátum þá er hægt að stilla útboðinu upp á þann hátt að útfærsla á dráttarbáum sé mismunandi sem og afhending og greiðslur. Þannig er hægt að fara í sameiginlegt útboð þrátt fyrir að útfærsla bátsins, afhending og greiðsla sé í samræmi við óskir hvers og eins sveitarfélags.

Eftir 10. desember verður boðað til kynningarfundar þar sem farið verður yfir verkefnið og í framhaldinu geta sveitarfélög tekið ákvörðun um hvort þau vilja taka þátt eða ekki.