Samband íslenskra sveitarfélaga telur brýnt að víðtæk sátt náist um nýja þjóðgarðastofnun í umsögn þess um frumvarp til laga um stofnunina, sem umhverfis- og auðlindaráðherra hyggst leggja fram á Alþingi. Auk sambandsins hafa einstök sveitarfélög einnig veitt umsögn um málið.
Samband íslenskra sveitarfélaga telur brýnt að víðtæk sátt náist um nýja þjóðgarðastofnun í umsögn þess um frumvarp til laga um stofnunina, sem umhverfis- og auðlindaráðherra hyggst leggja fram á Alþingi. Auk sambandsins hafa einstök sveitarfélög einnig veitt umsögn um málið.
Allar umsagnir um frumvarpið eru aðgengilegar á samráðsgátt Stjórnarráðsins.
Almennt um afstöðu sambandsins
Sambandið leggst í umsögn sinni ekki gegn áformum um stofnun Þjóðgarðastofnunar. Stjórnsýsla þjóðgarða og friðlýstra svæða hefur að mati þess verið lítt samræmd og ástæða er til þess að ætla, að ný miðlæg stofnun geti stuðlað að betri og skilvirkari framkvæmd á sviði náttúruverndar.
Áhersla er lögð á að sem breiðust sátt takist um efni frumvarpsins. Hér sé um löggjöf að ræða sem snertir mjög marga, eins og sjá megi á þeim fjölda umsagna sem þegar hafa borist um málið. Ljóst sé að skoðanir séu mjög skiptar og má sem dæmi sjá af umsögnum, að sveitarstjórnarmenn telji ekki endilega þörf á miðlægri stofnun um málefni þjóðgarða og friðlýstra svæða.
Sambandið telur tilefni til þess, að skerpt verði á ákvæðum frumvarpsins um samráð við sveitarstjórnir. Mikilvægt er að sem best sátt ríki milli þjóðgarða og sveitarstjórna. Að áliti sambandsins er sérstaklega ástæða til þess, að kalla eftir samtali við ráðuneytið um að tryggja skýrari aðkomu sveitarfélaga að ákvörðunum um friðlýsingu landsvæða innan marka sveitarfélags sem þjóðgarðs, sbr. 3. mgr. 4. gr. og um afmörkun þjóðgarða. Almenn afstaða sveitarstjórna um land allt hljóti að vera sú, að landsvæði verði ekki friðlýst sem þjóðgarður í óþökk sveitarstjórnar.
Sama sjónarmið á enn fremur, að mati sambandsins, við um ákvarðanir um stækkun þjóðgarða, sbr. 6.-8. gr. frv. Athygli vekur að eins og þau ákvæði eru orðuð virðast engar málsmeðferðarreglur gilda um breytingar á mörkum þjóðgarða, heldur sé ráðherra framselt allt forræði á því að ákvarða mörk þeirra með reglugerð. Að áliti sambandsins þarf að lágmarki að setja inn ákvæði um málsmeðferð, sem tryggja vandaða umfjöllun í svæðisráðum og stjórn viðkomandi þjóðgarðs, ásamt samráði við viðkomandi sveitarfélög áður en reglugerð er gefin út um stækkun þjóðgarða.
Þá er að áliti sambandsins tilefni til þess að funda með ráðuneytinu um ákvæði 10. gr. frumvarpsins, sem fjallar um uppkaup og eignarnám ásamt öðrum þeim athugasemdum sem fram koma í umsögnum sveitarfélaga.
Möguleg áhrif á verkefni stjórna þjóðgarða og dreifingu starfa
Í umsögn sambandsins er bent á, að mat á áhrifum frumvarpsins liggi ekki fyrir og né heldur forsendur um fjölda starfa, breytingar á fjölda starfsstöðva og staðsetningu þeirra, o.s.frv. Í kynningu ráðuneytisins fyrir skipulagsmálanefnd þess kom hins vegar fram, að gert væri ráð fyrir að starfsstöðvar stofnunarinnar yrðu víða um land, í samræmi við eðli verkefna stofnunarinnar. Æskilegt væri, að fyrir lægi nánari mynd um slíka þætti í starfseminni, en við því sé líklega ekki að búast á þessu stigi. Almennt segir um staðsetningu verkefna í skýringum við frumvarpið:
„Auk þess er eðlilegt að gera ráð fyrir að starfsemi sem nýtist þvert á staðbundna starfsemi sé vistuð miðlægt. Í raun er sú starfsemi fyrst og fremst þjónusta við þjóðgarðana og aðrar staðbundnar rekstrareiningar þar sem ekki er hagkvæmt að byggja hana upp á hverjum stað. Auk fjármála, reksturs og mannauðsmála má skipta stoðþjónustu í tvo flokka í samræmi við stefnu og áherslur: Aðstoð við verkefni er lúta að innviðum og aðgengi að svæðum annars vegar og hins vegar fagleg þjónusta við gerð verndaráætlana. Rétt er að hafa í huga, að ekki er nauðsynlegt að öll stoðþjónusta sé vistuð á einum stað, þar sem hún getur verið staðsett innan staðbundinna rekstrareininga eftir því sem hentar.“
Sambandið telur ástæðu til að leggja sérstaka áherslu á, að skoðað verði hvaða þætti stoðþjónustu henti að staðsetja utan hinnar miðlægu stofnunar, þannig að tækifæri verði nýtt til þess að skapa ný störf utan höfuðborgarsvæðisins. Slík dreifing starfa er, ef vel tekst til, líkleg til þess að styrkja minni starfseiningar út um landið.
Sköpun atvinnutækifæra
Sambandið lýsir ánægju með það hve ítarlega er fjallað um atvinnumál í frumvarpinu og leggur áherslu á að horft verði til þeirra atvinnutækifæra sem geta skapast. Tilefni er þannig til þess að minna á alla þá nýsköpun, sem orðið hefur í ferðaþjónustu á starfssvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem sprottið hafa upp fjölmörg fyrirtæki er skapað hafa heimamönnum störf. Mikilvægt er að lagaumgjörðin stuðli að slíkri þróun og að áhersla á atvinnusköpun endurspeglist í stefnumörkun stjórnvalda.
Nálgast má umsögn sambandsins í heild sinni á hlekk hér að neðan.