14. des. 2016

Umsögn um drög að frumvarpi um skipulag haf- og strandsvæða

Hinn 23. nóvember sl., óskaði umhverfis- og auðlindaráðuneytið eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um skipulaghaf- og strandsvæða. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er minnt á að sveitarfélögin hafa um langt skeið kallað eftir því að sett verði löggjöf um strandsvæðisskipulag en um er að ræða nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum á Íslandi. Aukning hefur verið í starfsemi á haf- og strandsvæðum, sérstaklega sjókvíaeldi, og vaxandi eftirspurn og samkeppni er um svæði. Með Landsskipulagsstefnunni, sem samþykkt var sem þingsályktun sl. vor, er hægt að draga úr þessari streitu en þar er m.a. mælt fyrir um gerð heildstæðrar stefnu um skipulag haf- og strandsvæða.

Um frumvarpið

Í frumvarpinu er lagt til að heildarstefna um skipulag verði mótuð í landskipulagsstefnu þar sem lagður verði grundvöllur að gerð strandsvæðisskipulags á ákveðnum strandsvæðum. Lagt er til að ráðherra skipi svæðisráð með fulltrúum viðkomandi ráðuneyta, aðliggjandi sveitarfélaga og sambandinu og að svæðisráðið beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags á viðkomandi strandsvæði. Þá er Skipulagsstofnun ætlað ákveðið og umfangsmikið hlutverk samkvæmt lögunum,m.a. að annast gerð strandsvæðisskipulags í umboði svæðisráða, veita upplýsingar og leiðbeiningar um skipulagsmál.

Helstu atriði í umsögn sambandsins

Sambandið telur afar brýnt að frumvarpið nái fram að ganga. Það er mikilvægt að koma skipulagi á eftirsóknarverð svæði þannig að samræmi sé við skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Í frumvarpinu er mikið talað um samráð og samræmi strandsvæðisskipulags við skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Með skipulagsáætlunum er átt við aðal- og svæðisskipulag samkvæmt skipulagslögum. Um skipulag hafnarsvæða er fjallað í hafnalögum nr. 61/2003 þar sem m.a. kemur fram að skipulag hafnarsvæðis skuli miðast við þarfir hafna en að öll mannvirkjagerð í höfnum, á landi og sjó, skuli vera í samræmi við gildandi skipulag fyrir viðkomandi sveitarfélag. Þrátt fyrir að hagsmunir hafna og siglingaleiða séu tryggðir í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og öðrum lögbundnum ákvörðunum taldi sambandið rétt að árétta í umsögn sinni um sérstöðu hafnarsvæða til að tryggja innbyrðis samsæmi á milli strandsvæðisskipulags og skipulagsáætlana hafna og sveitarfélaga.

Hvað varðar skörun svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana við strandsvæðisskipulag telur sambandið að komið sé vel til móts við hagsmuni sveitarfélaga, en eins og kemur fram í skýringum við ákvæði 7. gr. frumvarpsins, er sérstök áhersla lögð á mikilvægi innbyrðis samræmis milli skipulagsáætlana líkt og ákvæði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hljóðar um.

Þá hefur frumvarpið ekki að geyma ákvæði um úrlausn ágreiningsmála. Í 17. gr. frumvarpsins er að finna heimild til þess að beina fyrirspurnum til Skipulagsstofnunar um hvort tiltekin framkvæmd eða starfsemi sé í samræmi við strandsvæðisskipulag. Ákvæðið hefur hins vegar engin réttaráhrif og er hvergi tekið á því í frumvarpinu hvort stjórnvöld geti tekið ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Að áliti sambandsins væri tilefni til þess að skoða hvort hægt sé að beina ágreiningsmálum til annars stjórnvalds en lykilatriði er að hægt sé að bregðast skjótt við þegar tilefni er til þess að stöðva óleyfisframkvæmdir.

Að lokum gerir sambandið þá tillögu, varðandi fjármögnun strandsvæðisskipulags, að gert verði ráð fyrir að u.þ.b. 50% fjármagnsins til að standa undir kostnaði af skipulagsvinnu komi úr Skipulagssjóði og 50% komi í formi nýs fjármagns frá ríkinu, sem fjármagnað verði af tekjum ríkisins af auðlindagjöldum.