Umsögn um grænbók um byggðamál

Grænbók um byggðamál hefur verið til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda en umsagnafrestur rennur út í dag, 25. janúar. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga er lögð áhersla á virkt samráð um málið þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnsýslustig til að tryggja breiða aðkomu og sátt um áætlunina og leggja sérstaka áherslu á hvernig byggða áætlun geti stutt við slíkt samstarf.

Í þeim stefnum sem liggja undir í grænbókinni, leggur Samband íslenskra sveitarfélaga á þessu stigi mesta áherslu á að auka vægi menntamála í byggðaáætlun. Öllum má vera ljóst að þörf er á skýrari stefnu og aðgerðum til að tryggja jafnrétti til náms um allt land. Þá gæti líka verið áhugavert að skilgreina mælikvarða um aðgang að menntun um allt land, til að fylgja eftir markmiðum byggðaáætlunar. Í samhengi við menntun og nýtingu tækni gæti líka þurft að skoða lagaumhverfið sem getur hindrað framþróun á þessu sviði, svo sem varðandi möguleika á stafræna umgjörð skólahalds.

Sveitarfélög skila inn umsögnum

Allmörg sveitarfélög hafa skilað inn umsögn um grænbókina, má þar nefna sveitarstjórn Dalabyggðar sem minnir á það í umsögn sinni að ekki megi gleyma aðstæðum í einstökum sveitarfélögum, þó að tölur fyrir heildina sýni ágætan árangur, þegar kemur að verkefnum og aðgerðum til úrbóta.

Þá leggur sveitarstjórn Norðurþings áherslu á gott aðgengi að grunnþjónustu eins og góðri heilbrigðisþjónustu, hjúkrunarrýmum og fjölbreyttri menntun óháð búsetu. Í umsögn Norðurþings segir ennfremur:

Þá telur sveitarstjórn mikilvægt að haldið verði áfram uppbyggingu innviða á sviði samgangna, fjarskipta og raforku og að áhersla verði lögð á starfræna þróun, nýsköpun og sprotastarfsemi. Framangreint skapar frjórri jarðveg fyrir fjölbreytt atvinnulíf og aukin búsetugæði.

Grænbók um byggðamál í Samráðsgátt