Umsögn um fyrirhugaðar breytingar á skipulagslögum

Sambandið hefur veitt umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um frumvarp um fyrirhugaðar breytingar á skipulagslögum. Með frumvarpinu er kveðið á um heimild til að unnið verði sérstakt raflínuskipulag sem tekur til svæðis þvert á sveitarfélagamörk til að auðvelda og flýta fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Gert er ráð fyrir að gerð slíks skipulags yrði í höndum nefndar sem skipuð verður fulltrúum ríkis og sveitarfélaga. Einnig er lagt til að umsagnarfrestur vegna tiltekinna auglýstra breytinga á deiliskipulagi verði styttur með það að markmiði að auka skilvirkni í stjórnsýslu vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Í samræmi við stefnu stjórnvalda um stafræna stjórnsýslu er auk þess kveðið á um stafræna gagnagátt fyrir skipulagsáætlanir í frumvarpinu.

Drög að umsögn um frumvarpið voru til umfjöllunar á fundi stjórnar sambandsins 29. september sl. Meirihluti stjórnarmanna samþykkti svohljóðandi bókun:

Stjórnin gerir ekki athugasemd við þá hluta umsagnarinnar sem varða stafræna skipulagsgátt og raflínuskipulag. Stjórnin áréttar þó að tillaga um raflínunefnd, sem vinna mun sérstakt raflínuskipulag, er verulegt frávik frá meginreglum skipulagslaga. Mikilvægt er að við umfjöllun um frumvarpið á Alþingi verði sá skilningur staðfestur að ekki séu áform um frekari skref í þá átt að færa skipulagshlutverkið frá sveitarfélögunum, enda er skipulagshlutverkið einn af hornsteinum sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga.

Stjórnin telur þann hluta frumvarpsins sem snýr að einföldun lagaumhverfis ganga alltof skammt og að vinna þurfi þann hluta frumvarpsins betur og á heildstæðari hátt. Beinir stjórnin því til ráðherra að skipaður verði starfshópur til að vinna að víðtækari endurskoðun laganna hvað þetta varðar.

Tveir stjórnarmenn greiddu atkvæði gegn ofangreindri afgreiðslu og lögðu fram bókun þar sem lagst er gegn lögfestingu raflínuskipulags. Jafnframt er í þeirri bókun lýst vonbrigðum með að tillaga um styttingu auglýsingatíma deiliskipulagsáætlana vegna íbúðaruppbygginga gangi alltof skammt og það veki furðu að ekkert tillit hafi verið tekið til vel ígrundaðra og fjölmargra ábendinga Reykjavíkurborgar sem allar ganga út á að einfalda málsmeðferð og stjórnsýslu skipulagsmála.

Í umsögninni er kallað eftir því að fram komi skýr afstaða af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Alþingis um að tillögur um raflínuskipulag og raflínunefnd fela í sér mjög afmarkað frávik frá meginreglum skipulagslaga. Jafnframt þarf að liggja skýrt fyrir að ekki eru fyrirhuguð frekari skref sem gætu falið í sér skerðingu á skipulagshlutverki sveitarfélaga. Einnig bindur sambandið vonir við að nú þegar verði hafin markviss vinna við einföldun á málsmeðferð skipulagstillagna og að gott samstarf náist milli ríkis og sveitarfélaga um þróun og fjármögnun stafrænnar skipulagsgáttar.