Umsögn um fyrirhugaðar breytingar á lögum um opinber innkaup

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til að heimild til keðjuábyrgðar verði gerð að skyldu í lögum um opinber innkaup. Þá telur sambandið mikilvægt að hugað verði að stöðu bæði ríkis og sveitarfélaga, fari svo að Ríkiskaup verði lögð niður.

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til að heimild til keðjuábyrgðar verði gerð að skyldu í lögum um opinber innkaup. Þá telur sambandið mikilvægt að hugað verði að stöðu bæði ríkis og sveitarfélaga, fari svo að Ríkiskaup verði lögð niður.

Sambandið sendi nýlega frá sér umsögn vegna frumvarps til laga um breytingar á lögum um opinber innkaup

Meginmarkmið frumvarpsins er að gera gildandi ákvæði í lögum markvissari í framkvæmd og greiða með því móti fyrir hagkvæmum innkaupum á vegum hins opinbera. Með það fyrir augum er frumvarpinu m.a. ætlað að bæta samræmi á milli innlendra reglna og EES-réttar, að staðfesta heimild opinberra aðila til að hafa ákvæði um keðjuábyrgð í útboðum og að heimila niðurlagningu Ríkiskaupa. Er ráðherra jafnframt veitt heimild til að koma á fót sérstakri starfseiningu eða ríkisaðila sem hefur það hlutverk meðal annarra að veita ríkisstofnunum innkaupaþjónustu.

Að mati sambandsins eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu almennt til bóta. Gangi frumvarpið eftir verður ekki aðeins aukið samræmi á milli innlendra reglna og EES-réttar, heldur verða einnig þau ákvæði skýrar sem hafa þótt fremur óljós í framkvæmd frá gildistöku laganna árið 2016

Einnig er jákvætt að staðfest verði heimild opinberra aðila, til að hafa keðjuábyrgð sem hluta af útboðssamningum og að sama skapi er nauðsynlegt að útfært verði hvernig leysa eigi úr slíkri keðjuábyrgð í framkvæmd.

Þá telur sambandið ekki síður mikilvægt, að komið verði á fót sérstakri starfseiningu eða ríkisaðila sem þjónar ríki og sveitarfélögum  á núverandi starfssviði Ríkiskaupa, fari svo að þau verði lögð niður. Sú þjónusta þarf, svo vel sé, að miða að skipulagningu, framkvæmd og fræðslu um opinber innkaup hjá bæði sveitarfélögum og ríkisstofnunum.

Í umsögn sambandsins er síðan gengið skrefinu lengra varðandi keðjuábyrgð og hvatt til þess að heimildarákvæði frumvarpsins verði gert að skyldu. Er það m.a. gert með vísan í skýrslu samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði , sem gefin var út í janúar sl., en þar er lagt til, sem eitt úrræði af fleirum, að keðjuábyrgð í opinberum innkaupum verði gerð að lagaskyldu.

Sem aðili að samstarfshópnum, hvetur sambandið til þess að heimildarákvæði frumvarpsins vegna keðjuábyrgðar verði gert að skyldu, að því gefnu að nákvæmar leiðbeiningar verði einnig settar fram í lögum um hvernig keðjuábyrgð skuli framfylgt. Fjallað er nánar um slíkar leiðbeiningar í umsögn sambandsins um frumvarpið.