Umsagnir um grænbókina

Sveitarfélög eru í umsögnum sínum um Grænbók um málefni sveitarfélaga jákvæð gagnvart þeim almennu markmiðum sem þar koma fram og lúta að því að efla sveitarstjórnarstigið og styrkja sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Meirihluti þeirra virðist jafnframt hlynntur því að tiltekinn lágmarksfjöldi íbúa verði lögfestur.

Sveitarfélög eru í umsögnum sínum um Grænbók um málefni sveitarfélaga jákvæð gagnvart þeim almennu markmiðum sem þar koma fram og lúta að því að efla sveitarstjórnarstigið og styrkja sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Meirihluti þeirra virðist jafnframt hlynntur því að tiltekinn lágmarksfjöldi íbúa verði lögfestur.

Afstaða smærri sveitarfélaga sker sig úr að þessu leyti og er í umsögnum þeirra bent á, að fylgni er ekki sjálfgefin á milli fjölda íbúa annars vegar og fjárhagslegrar afkomu hins vegar. Reksturinn hjá fámennum sveitarfélögum standi í mörgum tilvikum betur en hjá þeim sem fjölmennari eru.

Þá er almennt fagnað, því frumkvæði sem tekið er í grænbókinni að umræðu um stöðu sveitarfélaga og þróun til framtíðar litið. Skjalið þykir, sem dæmi, upplýsandi um núverandi stöðu sveitarfélaga og vel til þess fallið að hvetja til umræðu um hver verkefni sveitarstjórnarstigsins eigi að vera og þær forsendur sem þurfa að vera til staðar svo að sveitarfélög geti leyst þau af hendi.

Varnagli er þó sleginn víða, s.s. við óskýru eða ekki nægilega vel skilgreindu orðalagi. Sem dæmi, þá er í einni umsögn bent á að skilgreina verði betur hvað átt sé við með „sjálfsstjórn sveitarfélaga“. Eftir því sem ríkisvaldið feli sveitarfélögum fleiri og flóknari verkefni, verði sú tilhneiging sterkari að herða á eftirliti ríkisvaldsins, sem dragi svo aftur úr sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Þá geti umræða um sveitarfélögin sem öflugar og sjálfbærar einingar spannað allt frá tekjustofnum þeirra og raunverulegu svigrúmi sveitarfélaga til ákvarðanatöku að þeirri miklu endurnýjun sem á sér stað í sveitarstjórnarkosningum á meðal kjörinna fulltrúa og ógnar uppbyggingu á reynslu og þekkingu í þeirra hópi.

Hvað Jöfnunarsjóð sveitarfélaga snertir, þá kemur sjóðurinn aðallega við sögu í tengslum við sameiningarumræðuna. Fjölkjarna sveitarfélag bendir sem dæmi á, að sameiningar megi ekki verða til þess að svipta nýju sveitarfélagi fjármagni umfram það sem þykir eðlilegt til rekstrar sveitarfélags.

Í allmörgum tilvikum er jafnframt tekið fram, að of naumur tími hafi verið skammtaður sveitarstjórnum til umræðna um grænbókina.

Umsagnarfresti um grænbókina lauk nýverið eða þann 11. júní sl. Af þeim 17 umsögnum sem bárust, voru 12 frá sveitarfélögum og 2 frá einstaklingum eða íbúum. Þá skiluðu tvenn félagasamtök inn umsögn.

Í umsögn sinni fjallar Samband íslenskra sveitarfélaga eingöngu um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sbr. kafla 6.1 í grænbókinni um lykilviðfangsefni til næstu ára. Byggir umsögnin því á eldri umsögnum um breytingar á stjórnarskrá og hafa helstu kröfur og ábendingar sambandsins í þeim efnum verið dregnar saman í sex breytingartillögur.

Þar á meðal má nefna, að ákvæði bætist við stjórnarskrá varðandi burði og tekjur sveitarfélaga til að sinna lögbundnum verkefnum, að samráð skuli haft við sveitarfélög vegna lagasetningar sem varðar með beinum hætti málefni þeirra og afkomu og að sveitarstjórnum verði tryggður réttur til að bera undir dómstóla meint brot gegn sjálfsstjórnarrétti þeirra, sbr. 11. gr. Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Ákveðið var að afmarka umsögn sambandsins með þessum hætti í ljósi þess, að fulltrúar þess tóku virkan þátt í gerð grænbókarinnar.

Þess má svo geta að grænbókin verður tekin til umfjöllunar á aukalandsþingi sambandsins þann 6. september nk. eins og áður hefur verið sagt frá.