Umsagnarfrestur um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga framlengdur

Innviðaráðuneytið hefur ákveðið að framlengja umsagnarfrest um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til 30. mars.

Markmið með endurskoðuninni er að bæta gæði jöfnunar, einfalda útreikninga og skipulag sjóðsins og að Jöfnunarsjóður fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.

Kynnt eru til umsagnar drög að skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem byggja á niðurstöðum starfshópsins.

Umtalsverðar breytingar voru gerðar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árið 1990 og segja má að þá hafi sjóðurinn orðið til í núverandi mynd. Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á sveitarfélagaskipan og hefur þeim fækkað úr 204 niður í 64. Á sama tíma hefur sjóðnum verið falin veigamikil hlutverk t.d. í tengslum við yfirfærslu grunnskólans og málefni fatlaðs fólks. Sjóðurinn starfar því í gerbreyttu umhverfi og þarf umgjörð hans að endurspegla það.

Starfshópurinn leggur til að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til skerðingar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi vannýttum útsvarstekjum, þ.e. mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.

Svo stuðla megi að fyrirsjáanleika í rekstri sveitarfélaganna leggur starfshópurinn til að nýtt líkan jöfnunarframlaga verði innleitt í skrefum á fjögurra ára tímabili.

Nánar í Samráðsgátt.