Upptökur af umræðu- og upplýsingafundi um NPA

Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytið stóðu í gær fyrir umræðu- og upplýsingafundi um innleiðingu nýrra og breyttra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Var á fundinum horft sérstaklega til notendastýrðrar persónulegar aðstoðar, NPA, og gildistöku reglugerðar nr. 1250/2018, sem gefin var út skömmu fyrir síðustu áramót.

Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytið stóðu í gær fyrir umræðu- og upplýsingafundi um innleiðingu nýrra og breyttra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Var á fundinum horft sérstaklega til notendastýrðrar persónulegar aðstoðar, NPA, og gildistöku reglugerðar nr. 1250/2018 um þjónustuna, sem gefin var út skömmu fyrir síðustu áramót.

Með gildistöku nýrra laga nr. 38/2018 um fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, var réttur einstaklinga til NPA skilgreindur og kveða lögin m.a. á um að aðstoðin skuli skipulögð á forsendum notandans og undir verkstýringu og verkstjórn hans. Það var þó ekki fyrr en með útgáfu áðurnefndrar reglugerðar sem sveitarfélög hafa haft nægar forsendur til að innleiða NPA á grundvelli nýju laganna. Þá er reglugerðinni einnig ætlað að tryggja samræmda framkvæmd þjónustunnar á faglegum grunni.

Á fundinum var svo einnig fjallað um starfsleyfi vegna NPA, endurútgáfu handbókar um NPA og samningsform vegna þjónustunnar. Nálgast má NPA samningsform á vef félagsmálaráðuneytis, en í sumum tilvikum er enn um vinnuskjal að ræða.

Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, félagsmálastjóri í Fjarðabyggð og Sigurbjörg Fjölnisdóttir, verkefnisstjóri á fjölskyldusviði Mosfellsbæjar, fjölluðu enn fremur um NPA frá sjónarhóli sveitarfélaga. Hjörtur Örn Eysteinsson, skrifstofustjóri NPA miðstöðvarinnar og Ragnar Gunnar Þórhallsson, stjórnarmaður í NPA miðstöðinni, gerðu grein fyrir sjónarhorni notenda. Aðrar framsögur höfðu Þór Garðar Þórarinsson, sérfræðingur í félagsmálaráðuneyti og Gunnhildur Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Gæða- og eftirlitsstofnun í félagsþjónustu og barnavernd.

Fundarstjóri var Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður sambandsins.