Umhverfisstofnun hafnar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um ógildingu starfsleyfa fiskeldisfyrirtækja í Patreksfirði og Tálknafirði. Leyfisútgáfa hafi verið í samræmi við lög og reglur og telur stofnunin að mörgum spurningum sé ósvarað varðandi úrskurði nefndarinnar.
Umhverfisstofnun hafnar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um ógildingu starfsleyfa fiskeldisfyrirtækja í Patreksfirði og Tálknafirði. Leyfisútgáfa hafi verið í samræmi við lög og reglur og telur stofnunin að mörgum spurningum sé ósvarað varðandi úrskurði nefndarinnar.
Jafnframt hefur Umhverfisstofnun mælst til þess við úrskurðarnefndina að réttaráhrifum verði frestað á meðan dómstólar fjalli um málin.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvarðanir bæði Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar um útgáfu rekstrar- og starfsleyfa fyrir rekstraraðilana Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalax hf. í Patreks- og Tálknafirði. Ógilding byggir í báðum tilvikum á sömu rökum.
Rökin eru í grófum dráttum þau, að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna uppfylli ekki skilyrði laga sem grundvöllur leyfisveitinga vegna þess, að stofnuninni hafi láðst að kalla eftir umfjöllun um mismunandi valkosti í framleiðslu á eldislaxi.
Að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar liggur ekki fyrir á þessari stundu hvernig brugðist verður við niðurstöðum úrskurðanna, en farið verði yfir mögulegar lausnir með umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Seiði hafi einungis verið sett út á einu eldissvæði og umfang því lítið enn sem komið er.
Einnig kemur fram að Umhverfisstofnun hafi mælt með því úrskurðarnefndina að réttaráhrifum af umræddum úrskurðum verði frestað á meðan meðferð dómstóla muni standa. Byggir sú afstaða á því að Umhverfisstofnun telur að útgáfa starfsleyfa hafi verið í samræmi við lög og reglur.
Umhverfisstofnun tekur ekki heldur undir rök úrskurðarnefndarinnar þess efnis, að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hafi ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda.
Umhverfisstofnunin bendir jafnframt á að úrskurðarnefndin hafi ekki leitað umsagnar Skipulagsstofnunar í rannsókn sinni á málinu og telur því að nefndinni hafi láðst að leggja þýðingarmikil sjónarmið til grundvallar í úrskurði sínum, einkum um raunhæfa valkosti.
Þá bendir Umhverfisstofnun á að úrskurður nefndarinnar sýni að þörf sé á að skýrt verði nánari í lögum hvaða hlutverki leyfisveitendi gegni varðandi álitsmats Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum. Úrskurðarnefndin telji að skyldur leyfisveitenda nái ekki einvörðungu til þess að taka afstöðu til álits Skipulagsstofnunar á umhverfismati, heldur beri leyfisveitanda einnig að kanna hvort annmarkar geti verið til staðar, s.s. skortur á umfjöllun um valkosti.
Í þeirri afstöðu nefndarinnar telur Umhverfisstofnun að felist krafa um formlegt og efnislegt endurmat leyfisveitanda á áliti Skipulagsstofnunar; hlutverk sem ekki kveðið með skýrum hætti á í lögum.
Þá áréttar stofnunin að starfs-og rekstrarleyfin hafi verið ógilt á grundvelli þess að eftirliti með framkvæmd umhverfismats hafi verið áfátt, en ekki vegna þess að skilyrði í starfsleyfi um mengunarvarnir hafi verið ófullnægjandi.