06. okt. 2015

Vegvísir í ferðaþjónustu

- ríkisstjórnin, sveitarfélög og ferðaþjónustan taki höndum saman

 

Þann 6. október var undirritað samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar um að sett verði á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem mun starfa til ársloka 2020. Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, undirritaði samkomulagið fyrir hönd sveitarfélaganna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisins, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, fyrir þeirra hönd.

Undirritun vegvísis í ferðamálum

Hlutverk stjórnstöðvarinnar er að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu ríkisins, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila. Þá mun hún sjá til þess að næstu fimm ár verði nýtt til að ráðast í þau verkefni sem nauðsynleg eru til að leggja þann trausta grunn sem kallað er eftir í íslenskri ferðaþjónustu.

Hörður Þórhallsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri stjórnstöðvarinnar. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga í stjórnstöðinni verða Halldór Halldórsson formaður sambandsins og Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, sem jafnframt er formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Þá kynntu Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, og Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, nýja ferðamálastefnu. Stefnan er afrakstur vinnu stýrihóps og verkefnahóps sem unnu að gagnaöflun, greindu stöðuna og kynntu sér fyrirmyndir erlendis frá. Auk þess funduðu hóparnir með um 1.000 manns vítt og breitt um landið.

Vinnan við stefnumótunina leiddi fljótt í ljós hversu veikar undirstöðurnar eru fyrir mótun framtíðarstefnu í ferðaþjónustu á Íslandi. Áreiðanleg og alþjóðlega samanburðarhæf gögn og mælikvarða bráðvantar, ábyrgð er víða óljós, lagaumgjörðin er flókin og skipulag greinarinnar óskýrt. Niðurstaða stýrihópsins var því að horfa sérstaklega til forgangsverkefna næstu fimm ára, en þau snúa að því að leggja traustan grunn fyrir farsæla og sjálfbæra þróun ferðaþjónustunnar til framtíðar. Á næstu fimm árum verður fyrst og fremst lögð áhersla á verkefni sem stuðla að:

  • Samhæfðri stýringu ferðamála
  • Jákvæðri upplifun ferðamanna
  • Áreiðanlegum gögnum
  • Náttúruvernd
  • Hæfni og gæðum
  • Aukinni arðsemi
  • Dreifingu ferðamanna

http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/idnadar-og-vidskiptamal/frettir/nr/8755