15. nóv. 2019

Urðunarskattur settur á ís

Eins og kunnugt er mótmælti sambandið harðlega í byrjun hausts áformum um að leggja á sérstakan urðunarskatt. Í umsögn sambandsins um frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna forsendna fjárlaga fyrir árið 2020 var þessari skattlagningu lýst sem ótímabærri, óútfærðri og án nauðsynlegrar tengingar við stefnumótun í úrgangsmálum og loftslagsmálum.

Alþingismenn virðast vera sama sinnis. Í áliti meirihluta fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 kemur fram að „ekki gert ráð fyrir tekjum af urðunarskatti um sinn á meðan unnið er að útfærslu innheimtunnar“.

Sambandið væntir þess að samráð verði haft við sveitarfélögin og aðra haghafa áður en frekari skref verða stigin varðandi þessa umdeildu skattheimtu.