14. apr. 2020

Tillögur að stuðningi ríkisins við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga

  • EndurnyjanlegOrka

Vinnuhópur þriggja ráðuneyta um fyrirkomulag ríkisstuðnings við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga leggur til að styrkveitingar ríkisins miði við 20% af kostnaði. Í tilfellum þar sem viðtakar eru viðkvæmir eða hár kostnaður leggst á fámenn sveitarfélög geti hlutfallið orðið allt að 30%. Í vinnuhópnum sátu fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í skýrslu sinni leggur vinnuhópurinn til eftirfarandi forgangsröðun verkefna:

  1. Bæta fráveitu frá þéttbýli, þannig að hún uppfylli kröfur reglugerðar um hreinsun skólps. Áhersla á sniðræsi, hreinsivirki og útrásir.
  2. Draga úr örplastsmengun með hreinsun ofanvatns.
  3. Leggja frekara mat á kostnað og umhverfisávinning af aukinni hreinsun skólps og nýtingu seyru sem þá fellur til, hjá mismunandi sveitarfélögum.

Upplýsingar um ástand fráveitumála, til að mynda úr skýrslu Umhverfisstofnunar frá 2017, sýna að brýnast er að gera átak í fráveitumálum á þéttbýlisstöðum utan höfuðborgarsvæðisins. Þar býr aðeins um fjórðungur íbúa við fráveitu sem uppfyllir kröfur um hreinsun skólps sem gerðar eru í reglugerð.

Plast sem hafnar í umhverfinu er alvarlegt og vaxandi vandamál. Í samantekt um örplast, sem gerð var að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra, kemur fram að stærsti hluti örplastsins, sem myndast t.d. við slit á hjólbörðum, berst með regni og leysingavatni í haf og vötn. Til þess að sporna við þessu er hægt að grípa til hreinsunar ofanvatns með settjörnum eða síun gegnum jarðveg.

Ef ráðist yrði í aukna hreinsun skólps frá þéttbýli félli til aukið magn seyru. EFLA verkfræðistofa hefur unnið skýrslu um möguleika og áskoranir sem því gætu fylgt. Í skýrslunni er miðað við aukna hreinsun skólps í þéttbýli þar sem fleiri en 10.000 búa. Þar kemur m.a. fram að með auknu magni seyru mætti græða upp um 1.700-2.300 ha lands á ári. Því myndi fylgja kolefnisbinding sem samsvarað gæti akstri 2.400 bíla árlega. Þá myndu einnig skapast tækifæri til gasframleiðslu, sem knúið gætu 1.600 metan-bíla á ári.

Heildarkostnaður vegna allra þessara verkefna er áætlaður 28 – 40 ma.kr. og kostnaður ríkisins því, miðað við 20% endurgreiðslu, 5,5 – 8 ma.kr. Ef miðað er við að framkvæmdir dreifist yfir 10 ár yrði kostnaður ríkisins 550 – 800 milljónir á ári. Unnið er að útfærslu stuðningsins og til hvaða ofangreindra þátta hann muni taka að sinni.