14. sep. 2018

Tengsl aðferða og árangurs í svæðisáætlanagerð

UrgangsmalViðurkenndar aðferðir í innleiðingu og eftirfylgni eru lykillinn að vel heppnaðri svæðisáætlanagerð í úrgangsmálum. Rannsókn Bjarna D. Daníelssonar  vegna lokaverkefnis á meistarastigi bendir til þess, að laga þurfi það lagaumhverfi sem slíkar svæðisáætlanir styðjast við að þessum aðferðum árangursríkrar breytingastjórnunar.

Lokaverkefni Bjarna var unnið í stefnumótun og framtíðarsýn við Háskólann á Bifröst og byggir á rannsóknin á tveimur svæðisáætlunum hér á landi um meðhöndlun úrgangs. Markmiðið var að athuga hvort að verkefnastjórn þeirra hafi stuðst við viðurkenndar aðferðir við stefnumótun og framtíðarsýn svæðisáætlananna. Þá var einnig skoðað hvort samhengi sé á milli aðferðafræði sem er beitt í stefnumótunarvinnu og árangurs sveitarfélaga við meðhöndlun úrgangs.

Í útdrætti kemur m.a. fram að við gerð svæðisáætlana um úrgangsmál, séu gildandi lög höfð til hliðsjónar ásamt almennri stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um meðhöndlun úrgangs. Með hliðsjón af þeim óafturkræfa skaða sem neysluvenjur mannsins geti valdið umhverfi og lífríki, sé jafnframt nauðsynlegt að flokkunarmöguleikar á úrgangi séu til staðar ásamt endurnýtingu og endurvinnslu.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiðir í ljós að ekki hafi verið stuðst með meðvituðum hætti við aðferðafræði í stefnumótun og framtíðarsýn svæðisáætlananna. Hins vegar var greinilegt samhengi á milli aðferða við gerð stefnumótunar og árangurs þeirra.

Þegar svæðisáætlanirnar voru mótaðar var tekið mið af landsáætlun um meðhöndlun úrgangs og þeim lögum og reglugerðum sem um þær giltu á þeim tíma. Í ljósi þess að landsáætlunin feli ekki í sér aðgerðir til innleiðingar og eftirfylgni, sem er lykillinn að vel heppnaðri breytingastjórnun, benda niðurstöður verkefnisins til þess að endurskoða þurfi laga- og regluumhverfi hvað það atriði varðar.

Nálgast má nánari upplýsingar um lokaverkefnið hjá Bjarna D. Daníelssyni (netfang bjarni@blaskogabyggd.is, farsíma 860 4440).