Samráðsvettvangur sveitarfélaganna um loftslagsmál og heimsmarkmiðin

Stofnfundur um samráðsvettvang sveitarfélaganna vegna loftslagsmála og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fór fram í dag. Alls hefur 41 sveitarfélag gerst aðili að vettvangnum, en frestur til að tilkynna þátttöku á samráðsvettvangnum er til næstu áramóta.

Stofnfundur um samráðsvettvang sveitarfélaganna vegna loftslagsmála og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fór fram í dag. Alls hefur 41 sveitarfélag gerst aðili að nýja samráðsvettvangnum, en frestur til að tilkynna aðild rennur út um næstu áramót.

Stofnfundurinn var opinn kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélaga ásamt starfsmönnum landshlutasamtaka. Gefinn var kostur á þátttöku í fjarfundarbúnaði og nýtti um fjórðungur fundarmanna sér það, af þeim liðlega 60 manna hópi sem mætti til leiks.

Alls áttu 36 eða ríflega helmingur af 72 sveitarfélögum landsins fulltrúa á fundinum. Þau sveitarfélög sem gerst hafa aðilar að samráðsvettvangnum eru, eins og áður segir, ívið fleiri eða 41 að tölu. Gera má ráð fyrir að í þeim búi um og yfir 90% landsmanna, lauslega áætlað.

Aðild fer fram með skráningu á tengiliði sveitarfélags og gefst hverju sveitarfélagi kostur á að skrá allt að tvo tengiliði.  Fyrir stofnfundinn í dag höfðu alls 66 tengiliðir verið skráðir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og má út frá því ætla að um helmingur aðildarsveitarfélaga hafi nýtt sér svigrúmið til að skrá tvo.

Vonir eru bundnar við, að öll sveitarfélög landsins eða því sem næst hafi gerst aðilar að samráðsvettvangnum fyrir næstu áramót með skráningu á einum til tveimur tengiliðum.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, sagði í stofnfundarávarpi sínu, að aðlögun að sjálfbærri þróun væri eitt brýnasta verkefni samtímans, hvort heldur litið er til loftslagsmála eða innleiðingar á heimsmarkmiðum S.þ. Sú staða sem nú er uppi, er fordæmalaus og ljóst sé að leita verði vænlegra leiða til að takast á við þær áskoranir sem landsmenn standi frammi fyrir. Með stofnun samráðsvettvangsins væru sveitarfélögin í landinu að leggja sitt af mörkum, með samstarf og samstilltar aðgerðir um land allt að markmiði.

Aðrir frummælendur á fundinum voru Eygerður Margrétardóttir, sérfræðingur og Helga Guðrún Jónasdóttir, samskiptastjóri hjá sambandinu, en þær eru starfsmenn samráðsvettvangsins ásamt Óttar Frey Gíslasyni, forstöðumanni Brussel-skrifstofu sambandsins.

Þá sagði Hrönn Hrafnsdóttir hjá Reykjavíkurborg frá loftslagsstefnu borgarinnar og Stefán Gíslason hjá Environice stiklaði á helstu þáttum í útreikningum á kolefnissporum sveitarfélaga. Fundarstjóri var Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá sambandinu.

Á fundinum var jafnframt tilkynnt, að fyrsti fundur hjá samráðsvettvangnum verði haldin þann 13. september nk. Verða fundarboð send tengiliðum er nær dregur.

Fundinum lauk á því að lögð voru fram til kynningar drög að yfirlýsingu um samstarf sveitarfélaga að loftslagsmálum og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun . Er í yfirlýsingunni skorað á sveitarstjórnir um allt land að taka yfirlýsinguna til umfjöllunar og gera að sinni.

Voru drögin samþykkt með óverulegum breytingum  og verða send sveitarstjórnum á næstu dögum.

Nálgast má upplýsingar um fundinn á vef sambandsins.

Ljósmyndin er af Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga á stofnfundinum í dag.