20. ágú. 2014

Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína

  • Raflínur

Atvinnuvegaráðuneytið hefur birt til kynningar á heimasíðu sinni drög að tillögu til þingsályktunar um lagningu raflína. Í tillögunni eru settar fram eftirfarandi meginreglur um lagningu raflína

1.1.1 Lágspennt dreifikerfi raforku

Í lágspennta dreifikerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við jarðstrengi við lagningu raflína eða endurnýjun eldri lagna. Í rökstuddum undantekningartilvikum skal vera heimilt að notast við loftlínur, vegna sérstakra ástæðna.

1.1.2 Landshlutakerfi raforku

Í landshlutakerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við jarðstrengi við lagningu raflína eða endurnýjun eldri lagna, að því gefnu að það sé tæknilega raunhæft og að kostnaður við slíka lausn sé ekki meiri en tvöfaldur kostnaður við loftlínu. Í rökstuddum undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá þessari meginreglu, t.d. ef í umhverfismati kemur fram að loftlína sé talinn betri kostur út frá umhverfissjónarmiðum.

1.1.3 Meginflutningskerfi raforku

Í meginflutningskerfi raforku skal meginreglan vera sú að notast sé við loftlínur nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Með tilliti til umhverfis- og öryggissjónarmiða skal meta í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið, eða afmörkuðum köflum hennar, á grundvelli eftirfarandi viðmiða sem réttlæta þá að dýrari kostur sé valinn:

1. Ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlisstaðar (þar sem búa fleiri en 200 íbúar).

2. Ef línuleið er innan friðlands, sem verndað er sökum sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúrurvernd.

3. Ef línuleið er innan þjóðgarðs.

4. Ef línuleið er innan friðlands sem verndað er af öðrum sökum en sérstaks landslags, sbr. 53. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

5. Ef um sérstök öryggissjónarmið er að ræða, eins og t.d. flugöryggi í nálægð við flugvelli eða bætt afhendingaröryggi raforku.

Í ofangreindum tilvikum skal meta hve langan jarðstreng er tæknilega mögulegt að vera með á viðkomandi stað í meginflutningskerfinu, kostnað og hvaða áhrif útfærslan hefur á afhendingaröryggi og gæði raforku. Ef kostnaður við að leggja jarðstreng er í ofangreindum tilvikum ekki meiri en tvöfaldur kostnaður við loftlínu á viðkomandi kafla skal miða við að leggja jarðstreng, nema ef ekki er talið tæknilega mögulegt að leggja jarðstreng eða ef loftlína er í umhverfismati talin betri kostur á grundvelli umhverfissjónarmiða. Reglan um hámarkskostnaðarmun gildir þó ekki þegar um er að ræða þéttbýlisstað eða friðland sem verndað er sökum sérstaks landslags, sbr. töluliðir 1 og 2.

1.2 Markmið um hlutfall jarðstrengja árin 2020, 2025 og 2035

Sem hluti af framtíðarsýn við uppbyggingu og þróun flutningskerfis raforku skal stefnt að því að árið 2020 verði hlutfall jarðstrengja í landshluta- og meginflutningskerfi raforku orðið a.m.k. 50% af lengd raflína, 65% árið 2025 og 80% árið 2035. Náist þessi markmið ekki skal endurskoða þingsályktun þessa.

1.3 Önnur atriði

Til viðbótar við framangreint skal hafa eftirfarandi sjónarmið almennt að leiðarljósi við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku:

  • Við val á línuleið fyrir raflínur skal forðast eins og kostur er röskun friðlýstra svæða og svæða sem njóta sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
  • Leita skal leiða til að draga úr sjónrænum áhrifum með þróun nýrra flutningsmannvirkja sem falla betur að umhverfinu og velja stæði þannig að sjónræn, eða önnur umhverfisáhrif séu sem minnst.
  • Leitast skal við að halda línugötum í lágmarki og raska ekki ósnortnu svæði ef aðrar lausnir koma til greina m.a. með tilliti til kostnaðar og umhverfisáhrifa.
  • Jarðstrengi skal svo sem kostur er leggja meðfram vegum.
  • Nýta skal núverandi línustæði við lausnir á aukinni flutningsgetu ef aðstæður leyfa, með spennuhækkun, fjölgun eða stækkun leiðara á línum eða öðrum þekktum aðferðum.
  • Afhendingaröryggi skal metið samhliða sem og kostnaður við að tryggja það.
  • Horfa skal til styrkingar og uppbyggingar raforkukerfisins með tilliti til þarfa allra landsmanna.
  • Tryggja skal að flutningstakmarkanir hafi ekki áhrif á aðgengi og að horft verði til viðskiptahagsmuna.
  • Tryggja skal, eins og kostur er, hagkvæmt flutnings- og dreifiverð til raforkukaupenda.

Vörugjöld af raflínum

Lagt er til að afnumið verði með breytingu á lögum það misræmi sem er á vörugjöldum af jarðstrengjum og loftlínum, þannig að tryggt sé að slíkir þættir hafi ekki áhrif á þá leið sem valin er við útfærslu framkvæmda í flutningskerfinu.

Í drögunum kemur fram eftirfarandi mat á áhrifum tillögunnar:

Komi sú stefna, um lagningu raflína, sem lögð er fram í þingsályktun þessari til framkvæmda mun hlutfall jarðstrengja í flutningskerfi raforku aukast jafnt og þétt á næstu árum. Lengd loftlína mun því minnka og verða þær því minna sýnilegar í íslenskri náttúru, auk þess sem þær verða að mestu fjarri friðlýstum svæðum og munu ekki liggja inn í þéttbýlisstaði.

Eftir sem áður ber bæði flutningsfyrirtækinu og dreifiveitum að gæta að hagkvæmni við uppbyggingu dreifi- og flutningskerfis raforku. Hagkvæmast er að koma loftlínum í landshlutakerfinu í jörðu og ætti því stefnan ekki að leiða til mikils viðbótarkostnaðar fyrir raforkunotendur hvað það varðar. Allar líkur eru á því að kostnaður muni fara lækkandi á lagningu jarðstrengja, a.m.k. á 66 kV og 132 kV raflínum, í náinni framtíð.

Að svo stöddu er hins vegar ekki unnt að leggja nákvæmt mat á kostnað vegna tilfærslna frá loftlínum yfir í jarðstrengi þar sem það ræðst af aðstæðum hverju sinni og útfærslum. Í landshlutakerfinu og meginflutningskerfinu er hins vegar einnig líklegt að einhverjar jarðstrengjalausnir verði all nokkuð dýrari en loftlínulausnir, sérstaklega þegar um er að ræða 132 kV eða 220 kV raflínur. Að svo stöddu liggur ekki fyrir hve langir slíkir kaflar gætu orðið og því erfitt að áætla kostnað sem því fylgir.

Ein af megináherslum þeirrar stefnu sem hér er lögð fram er að setja raflínur í jörðu þar sem það er fjárhagslega hagkvæmast og í þéttbýli og á svæðum sem friðlýst eru vegna sérstaks landslags. Framtíðarsýnin er sú að árið 2035 verði a.m.k. 80% af núverandi landshluta- og meginflutningskerfi komin í jörð. Gera má ráð fyrir að það hlutfall haldi áfram að vaxa eftir 2035. Eftir sem áður er, við þessa stefnumótun, reynt að tryggja að kostnaður við uppbyggingu kerfisins aukist ekki umfram það sem æskilegt má telja þannig að áfram verði tryggt að raforkuverð á Íslandi verði samkeppnishæft og hagstætt.