04. feb. 2013

Samstarf sambandsins við umhverfis- og auðlindaráðuneytið framlengt

  • Grænt hagkerfi

Eitt af síðustu embættisverkum Magnúsar Jóhannessonar, fráfarandi ráðuneytisstjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sem senn hefur störf sem framkvæmdastjóri fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins í Tromsö í Noregi, var að undirrita í dag viðauka við samstarfssamning milli ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í viðaukanum felst að samstarfssamningur sem undirritaður var í desember 2010 er framlengdur um tvö ár, til ársloka 2014. Á gildistíma viðaukans verður lögð áhersla á að auka þátttöku sveitarfélaga og samtaka þeirra í verkefnum á grundvelli þingsályktunar um eflingu græns hagkerfis á Íslandi auk verkefna sem miða að sjálfbærri þróun í sveitarfélögum, vöktun EES-gerða um umhverfismál og almenna samvinnu milli ráðuneytisins og sveitarfélaga á sviði umhverfismála.

Að undirritun lokinni þakkaði Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins Magnúsi kærlega fyrir gott samstarf á þeim rúmu tuttugu árum sem hann hefur gegnt starfi ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins og síðar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Á þeim tíma hefur margt áunnist á sviði umhverfismála og í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Má í því sambandi nefna samstarfsverkefni um kostnaðarmat lagafrumvarpa og reglugerða sem varða sveitarfélögin, en umhverfisráðuneytið var ásamt félagsmálaráðuneytinu árið 2003 fyrst ráðuneyta til að taka þátt í því þróunarverkefni, sem síðar leiddi til lögfestingar kostnaðarmats í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.

Magnús þakkaði jafnframt hlý orð í sinn garð og tók fram að hann hefði ávallt lagt á það áherslu starfi að eiga gott samstarf við sveitarfélögin, enda væri það mikilvæg forsenda þess að ná árangri í sínu starfi.

Grænt hagkerfi

Frá undirritun viðaukans 4. febrúar 2013: Sitjandi eru Magnús Jóhannesson og Karl Björnsson. Fyrir aftan þá standa frá vinstri: Lúðvík E. Gústafsson, verkefnisstjóri hjá sambandinu og sviðsstjórarnir Guðjón Bragason og Magnús Karel Hannesson.