30. okt. 2012

Mælt fyrir frumvörpum um dýravelferð og búfjárhald

  • Althingi_300x300p

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra mælti sameiginlega fyrir tveimur frumvörpum þann 25. október sl. Frumvörpin voru lögð fram á vorþingi en fengu þá ekki efnislega umfjöllun.

 

1.       Frumvarp til laga um velferð dýra. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 15/1994 um dýravernd og verulegan hluta laga um búfjárhald nr. 103/2002. Frumvarpið felur m.a. í sér að störf búfjáreftirlitsmanna verði flutt frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar (MAST). Á hinn bóginn eru felldar á sveitarfélögin skyldur til þess að handsama laus dýr, ásamt hjálparskyldu vegna sjúkra, særðra eða bjargarlausra dýra sem eru hálfvillt eða villt.

Af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið gerð athugasemd við að þessar skyldur séu of víðtækar samkvæmt frumvarpinu og feli í raun í sér að sveitarfélög muni áfram kosta mörg störf við eftirlit og umsýslu, enda þótt búfjáreftirlitsmenn færist yfir til ríkisins. Þá verði sveitarfélög knúin til þess að koma sér upp aðstöðu vegna handsamaðra gripa sem nái bæði til búfjár og gæludýra.

Í umræðum um framsögu ráðherra var sérstaklega nefnt að eðlilegt mætti telja að MAST bæri umræddar skyldur en gæti samið við sveitarfélög um aðgerðir á vettvangi þar sem það hentar og gegn greiðslu.

Þá kemur fram í frumvarpinu að umhverfis- og auðlindaráðherra beri ábyrgð á aðgerðum vegna villtra fugla og villtra spendýra sem eru í útrýmingarhættu og dýra sem lenda í umhverfisslysum. Þrátt fyrir hjálparskyldu er heimilt að taka ákvörðun um aflífun villtra dýra þegar fyrirsjáanlegur kostnaður við aðgerðir er verulegur.

 

2.       Frumvarp til laga um búfjárhald. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 103/2002 um búfjárhald, en hluti þeirra laga, þ.á m. ákvæði um búfjáreftirlit, hefur jafnframt verið felldur inn í frumvarp til laga um velferð dýra. Sveitarstjórnum er m.a. heimilt að setja samþykkt um búfjárhald og eftir atvikum takmarka eða banna búfjárhald í sveitarfélagi eða á tilteknum svæðum innan þess. Jafnframt er heimilt að kveða á um vörslu búfjár allt árið eða tiltekinn hluta ársins.

Eins og sjá má eru frumvörpin nátengd og fylgir þeim ein og sama umsögnin um mat á kostnaðaráhrifum fyrir sveitarfélögin. Nokkuð ber á milli atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og sambandsins um þessi áhrif þar sem ráðuneytið telur að árlegur kostnaður sveitarfélaga lækki um 83 m.kr. verði þau að lögum. Sambandið telur hins vegar að árlegur nettókostnaður sveitarfélaga hækki og að hækkunin geti verið á bilinu 7,6 - 35,1 m.kr. Er þá ekki tekið tilliti til stofnkostnaðar vegna aðstöðu fyrir handsömuð dýr og gripi sem sambandið telur að geti verið á bilinu 50 - 75 m.kr. fyrir landið í heild.

Sveitarfélög og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru sérstaklega hvött til þess að kynna sér ofangreind frumvörp og senda inn umsagnir til Alþingis og eða ábendingar til sambandsins sem nýst gætu við gerð umsagna um málin. Nánari upplýsingar um þessi mál veitir Tryggvi Þórhallsson lögfræðingur.