03. maí 2012

Umsögn um þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða

  • Raflínur

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis umsögn um þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða, 727. mál, að lokinni umfjöllun stjórnar sambandsins um málið.

Þeirri tillögu að þingsályktun sem nú liggur fyrir Alþingi er ætlað að reka smiðshöggið á ferli sem staðið hefur yfir í meira en áratug og á sér raunar enn lengri aðdraganda. Markmið verkefnisins er að skapa sátt um virkjanastefnu og eftir atvikum friðun einstakra virkjanakosta. Stjórn sambandsins tekur ekki afstöðu til flokkunar einstakra virkjanakosta í þingsályktunartillögunni en hvetur hins vegar sveitarstjórnir og landshlutasamtök sveitarfélaga til þess að koma afstöðu sinni á framfæri við atvinnuveganefnd Alþingis.

Sambandið væntir þess að atvinnuveganefnd Alþingis gaumgæfi vel hvort breytingar, sem gerðar hafa verið á rammaáætlun frá því aðupphaflegar tillögur faghópa voru kynntar, séu byggðar á nægilega traustum grunni og leiti allra leiða til að sem mest sátt náist um tillöguna svo hún verði traustur grunnur við ákvarðanatöku um vernd og orkunýtingu landsvæða næstu áratugi.

Umsagnir um þingsmál á 140. löggjafarþingi.