07. mar. 2012

Breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs til umsagnar

  • SIS_Umhverfis_taeknimal_760x640

Umhverfisráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. Tillögurnar fela m.a. í sér að umhverfisráðherra gefi út sérstaka landsáætlun um minnkun úrgangs til tólf ára í senn, að auðveldara verði fyrir almenning að skila frá sér flokkuðum úrgangi og að óheimilt verði að taka gjald fyrir móttöku úrgangs á söfnunarstöð.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og verkefnisstjórnar um úrgangsmál munu funda um málið með umhverfisráðuneytinu á næstunni og fara yfir megináherslur sveitarfélaga við innleiðingu tilskipunarinnar. Frekari upplýsingar um málið veitir Lúðvík E. Gústafsson.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum er markmið laganna að vernda umhverfið og heilbrigði manna með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs eða draga úr neikvæðum áhrifum hans.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra gefi út áætlun fyrir landið allt til tólf ára í senn um hvernig draga megi úr úrgangi sem unnin verði með sama hætti og landsáætlun um úrgang.

Þá er lagt til að sveitarstjórn skuli sjá til þess að úrgangi sé safnað í sveitarfélaginu og honum ráðstafað með réttum hætti. Sömuleiðis að sveitarstjórn tryggi að unnt verði að losa sig við flokkaðan úrgang við íbúðarhús, lögbýli og atvinnuhúsnæði og við afleggjara að sumarhúsi. Er talið að sú lausn sé best til þess fallin að auka flokkun úrgangs. Þá er lagt til að komið verði á sérstakri söfnun á a.m.k. pappír, málmum, plasti, gleri og lífrænum úrgangi en áætlað er að þetta ákvæði taki gildi 1. janúar 2015.

Einnig er lagt til að notast skuli við ákveðna forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Almennt skal leitast við að velja þá kosti sem skila bestu heildarniðurstöðunni fyrir umhverfið.

Frumvarpsdrögin og upplýsingar um hvert skila skal athugasemdum má finna á vefsíðu Umhverfisráðuneytisins.