25. nóv. 2011

Stofnfundur Sambands orkusveitarfélaga

 • Raflínur

Stofnfundur Sambands orkusveitarfélaga verður haldinn þann 25. nóvember í Turninum Firði Hafnarfirði kl. 14:00.

Tilgangur sambandsins er fyrst og fremst sá að standa vörð um hagsmuni orkusveitarfélaga gagnvart ríkisvaldi og orkufyrirtækjum. Í þeim efnum hafa hagsmunir hlutaðeigandi sveitarfélaga í mörgum tilvikum verið fyrir borð bornir. Rödd sveitarfélaganna hefur lítt heyrst í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um orkumál, orkuvinnslu og auðlindamál á Íslandi. Varðandi nýtingu orkuauðlinda landsins má ætla að hagsmunir ríkis og sveitarfélaga fari í mörgum atriðum saman.

Þau atriði sem blasa við að slíkt samband setji í forgang eru m.a. þessi.

 1. Greiddir verði fasteignaskattar af öllum fasteignum orkufyrirtækja:
  Eðlilegt hlýtur að teljast að orkufyrirtæki greiði fasteignaskatt af öllum sínum fasteignum eins og önnur fyrirtæki á frjálsum markaði. Þar koma t.d. til stíflumannvirki, lagnir og borholur og vatns- og jarðhitaréttindi sbr. úrskurð Fasteingaskrár ríkisins frá því í des. 2009. Reyndar má ætla að slíkar undanþágur kunni að brjóti í bága við jafnræðisregluna, samkeppnislög og reglur EES um opinbera styrki til fyrirtækja á markaði.

 2. Umhverfisskattar til sveitarfélaga eða náttúruauðlindagjald:
  Kanna hvort ekki sé eðlilegt að sveitarfélögin fái í sinn hlut náttúruauðlindagjald með svipuðum hætti og sveitarfélög í Noregi. Nú rennur til norskra sveitarfélaga um 22 aurar af hverju seldu kWh meðan um 4 aurar renna til norska ríkisins. Auk þess eru fleiri gjöld sem renna til sveitarfélaga í Noregi frá orkufyrirtækjunum. T.d. má nefna endurgjald vegna þess skaða á náttúrunni sem virkjanir eru taldar valda.

 3. Afgjald fyrir afnotaréttinn:
  Í þeim tilfellum sem sveitarfélög eru eigandi auðlinda komi til auðlindarenta með hliðsjóna af verðmæti auðlindarinnar. Tryggt verði sjálfsforræði sveitarfélaga yfir auðlindum sínum. Það taki m.a. til þess að þau hafi fullan rétt til að tryggja að auðlindir þeirra verði nýttar með sjálfbærum hætti.

 4. Nýtingartími auðlinda:
  Nýtingartími auðlinda taki mið af þeim reglum sem löggjafinn ákveður. Hann er 65 ár en hugmyndir eru uppi um að stytta þann tíma. Eðlilegt hlýtur að teljast að SO láti sig varða almenna löggjöf um orku- og umhverfismál.

 5. Skipulagsmál:
  Skoða þarf forræði sveitarfélaga varðandi skipulagsmál í tengslum við virkjanir þannig að þeim sé gert kleift að hafa frumkvæði og vera gerendur varðandi mótun skipulags í tengslum við orkuvirkjanir í stað þess að orkufyrirtækin ráði þar ferðinni og sveitarfélaganna sé aðeins að bregðast við.

Að undirbúningi að stofnun sambandsins hafa unnið:

 • Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar,
 • Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Ölfusi,
 • Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurkaupstaðar og
 • Stefán Bogi Sveinsson forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Hægt er að hafa samband við ofangreinda sé óskað  frekari upplýsinga.