Fundarferð Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar um landið

Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun standa fyrir fundarferð um landið í samstarfi við sveitarfélög vegna húsnæðis- og byggingarmála. Á meðal þess sem fundirnir fjalla um eru húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og byggingargátt Mannvirkjastofnunar, en þessum nýju stjórntækjum hins opinbera er aðallega ætlað að greiða fyrir þarfagreiningu og áætlanagerð, svo laga megi betur en nú er unnt húnsæðisframboð að eftirspurn.

Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun standa fyrir fundarferð um landið í samstarfi við sveitarfélög vegna húsnæðis- og byggingarmála. Á meðal þess sem fundirnir fjalla um eru húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og byggingargátt Mannvirkjastofnunar, en þessum nýju stjórntækjum hins opinbera er aðallega ætlað að greiða fyrir þarfagreiningu og áætlanagerð í húsnæðismálum, svo laga megi betur en nú er unnt húsnæðisframboð að eftirspurn.

Þá hefur hlutverk Íbúðalánasjóðs einnig tekið verulegum breytingum, en samfara nýrri löggjöf um húsnæðismál hefur stofnuninni verið fengin framkvæmd húsnæðismála. Þegar nýtt félagsmálaráðuneyti hóf störf tók það við húsnæðismálum og heyrir Íbúðalánasjóður því undir það ráðuneyti. Um síðustu áramót fluttust svo einnig mannvirkja- og byggingarmál og þar með Mannvirkjastofnun frá umhverfisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Markmiðið með þessum breytingum er að styrkja stjórnsýslu í húsnæðis- og byggingarmálum, en á meðal verkefna Mannvirkjastofnunar er að framfylgja lögum um mannvirki og tryggja samræmt byggingareftirlit.

Í janúar sl. skilaði átakshópur stjórnvalda í húsnæðismálum niðurstöðum vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði. Er þar m.a. fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld og sveitarfélög leggi sérstaka áherslu á vinnslu húsnæðisáætlana og sameiginlegar þarfagreiningar fyrir húsnæði á tilteknum svæðum. Einnig lagði átakshópurinn til að notkun byggingagáttar Mannvirkjastofnunnar verði gerð að lagaskyldu fyrir bæði byggingarstjóra og byggingarfulltrúa.

Í framhaldi af vinnu átakshópsins hefur Íbúðalánasjóði verið falið að leiða samráðsvettvang þeirra opinberu stofnana, sem hafa það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um húsnæðismál og miða m.a. að því að auka aðgengi að upplýsingum um stöðu mála á húsnæðismarkaði. Þá vinnur Íbúðalánasjóður um þessar mundir að miðlægum gagnagrunni fyrir upplýsingar um húsnæðismál.

Það var svo um síðustu mánaðamót sem Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun tóku höndum saman og hrundu af af stað umræddri fundarferð. Fundirnir eru einkum ætlaðir forvígismönnum sveitarfélaga og starfsmönnum í skipulags- og byggingarmálum og gagnaskráningum í byggingagátt Mannvirkjastofnunnar.

Fyrsti fundurinn var haldinn 28. maí sl. í ráðhúsinu á Ísafirði fyrir sveitarfélögin Bolungarvík, Súðavíkurhrepp og Ísafjarðarbæ. Aðrir fundir sem farið hafa fram voru með Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi (5. júní), Dalabyggð, Kaldrananeshreppi, Reykhólahreppi, Strandahreppi og Árneshreppi (6. júní), Akranesi, Borgarbyggð, Skorradal og Hvalfjarðarsveit (7. júní), Akrahreppi, Blönduósbæ, Húnaþingi vestra, Húnavatnshreppi, Skagaströnd og Skagafirði (11. júní) og Eyja- og Miklaholtshreppi, Grundarfirði, Helgafellssveit, Snæfellsbæ og Stykkishólm (14. júní)

Gert er ráð fyrir því að fundaröðin standi til 21. júní eða þar um bil.