Evrópska nýtnivikan 19.-27. nóvember

Dagana 19.-27. nóvember næstkomandi stendur evrópsk Nýtnivika yfir en markmið átaksins er að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.

Þema ársins er sjálfbærni og hringrás textíls undir slagorðinu Sóun er ekki lengur í tísku! Textíliðnaðurinn er einn sá umfangsmesti í heimi og honum fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda svo það skiptir miklu að draga úr sóun textíls.

Í tilefni Nýtnivikunnar eru sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir, skólar og almenningur hvött til þess að fræðast um umhverfisáhrif textíls og leggja sitt af mörkum til að skapa hringrásarhagkerfi textíls í samfélaginu. Til að mynda getið þið sett upp fataskiptimarkað á ykkar vinnustað og í viðhengi sjáið þið kynningarefni sem þið getið nýtt ykkur. Svo er um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn, halda viðgerðarkaffi, fyrirlestra eða hvað eina sem styður við minni sóun.


Við hvetjum alla þá sem munu standa fyrir viðburðum eða öðru tengdu Nýtnvikunni í ár að deila því með okkur á Facebook síðu Nýtnivikunnar með því að senda okkur skilaboð og við deilum því áfram. Einnig er hægt að hafa samband við okkur í gegnum netfangið samangegnsoun@samangegsoun.is og munið að taka myndir og tagga okkur og nýtnivikuna!

#samangegnsoun #nytnivikan #ewwr2022