08. mar. 2017

Drög að frumvörpum um landgræðslu og skógrækt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um frumvörp til laga, annars vegar um landgræðslu og hins vegar um skógrækt.

Landgræðsla

Meginbreytingar frumvarpsdraga um landgræðslu snúa að gerð landgræðsluáætlunar, kerfisbundnu mati á ástandi og nýtingu lands og ákvæði um sjálfbæra landnýtingu. Þá fela drögin einnig í sér að lög um varnir gegn landbroti eru felld inní heildarlög um landgræðslu. Fulltrúi sambandsins í starfshópi sem vann að gerð frumvarpsins var Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Skógrækt

Meginbreytingar frumvarpsdraga um skógrækt fela í sér gerð landsáætlunar í skógrækt, ákvæði um fellingarleyfi og sjálfbæra nýtingu skóga. Einnig fela drögin það í sér að lög um skógrækt á lögbýlum eru felld í heildarlög um skógrækt. Fulltrúi sambandsins í starfshópi sem vann að gerð frumvarpsins var Ragnar Frank Kristjánsson, sveitarstjórnarmaður í Borgarbyggð.

Frestur til að skila umsögnum um frumvarpsdrögin er til 19. mars nk. og væntir sambandið þess að senda inn umsagnir um bæði málin. Sveitarfélögum er bent á að senda umsagnir á netfangið postur@uar.is eða í bréfapósti á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.