Umdeilt frumvarp um haf- og strandsvæðaskipulag

Vonbrigðum er lýst með, í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna frumvarps til nýrra laga um skipulag haf- og strandsvæða, að ákvæði um svonefnd svæðisráð standi óbreytt frá síðasta löggjafarþingi, þegar frumvarpið var upphaflega lagt fram.

Vonbrigðum er lýst með, í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna frumvarps til nýrra laga um skipulag haf- og strandsvæða, að ákvæði um svonefnd svæðisráð standi óbreytt frá síðasta löggjafarþingi, þegar frumvarpið var upphaflega lagt fram.

Svæðisráðum verður fengið það hlutverk, skv. 5. grein frumvarpsins, að afgreiða haf- og strandsvæðaskipulag á sínu svæði hvert. Um allt að sjömanna einskiptisráð er að ræða, sem verða leyst upp að hverju svæðisskipulagi samþykktu og geta fulltrúar sveitarfélaga mest orðið tveir, ef fleiri sveitarfélög en þrjú eru á viðkomandi skipulagssvæði.

Aðrir sem eiga sæti í svæðisráði eru fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjórir ráðuneytisfulltrúar, sem tilnefndir eru af jafnmörgum ráðuneytum eða ráðuneyti orkumála og ferðamála, sjávarútvegsmála, samgöngumála og umhverfis- og auðlindamála og skipar síðastnefnda ráðuneytið jafnframt formann hvers ráðs.

Í eldri umsögn lagði sambandið ril breytingar sem styrkt hefðu stöðu heimafólks í svæðisráðum. Er, eins og áður segir, vonbrigðum lýst með að frumvarpið hafi verið endurflutt í óbreyttri mynd hvað fyrirhuguð svæðisráð snertir.

Sambandið leggur jafnframt áherslu á að í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis verði nálægðarreglan höfð í heiðri og að þess verði gætt að framkvæmd laganna verði í sem bestu samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á hverjum stað. Er í þessu sambandi minnt á að í  skipulagslögum hafi þau sjónarmið verið lögð til grundvallar að engin skörun eigi sér stað á milli skipulagsstiga.

Sambandið vonast til, að löggjafinn endurskoði frumvarpið m.t.t. framkominna athugasemda, enda verulegir hagsmunir í húfi, ekki hvað síst hjá sjávarútvegssveitarfélögum sem eiga mörg hver allt sitt undir sjálfbærri nýtingu strandsvæða ásamt innfjörðum og flóum.

Umsögn sambandsins er samin í góðu samráði við stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga. Í umsögn sinni tekur stjórn samtakanna að öllu leyti undir umsögn sambandsins nema því, að ekki er gengið nægilega langt hvað skipulagsskyldu sveitarfélaga snertir á strandsvæðum. Leggja samtökin þunga áherslu á, að forræði sveitarfélaga í skipulagi strandsvæða nái allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar.

Mjoeyri-eskifirdiMJóeyri við Eskifjörð