Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis greiðir ríkissjóður nauðsynlegan kostnað við störf undirkjörstjórna og kjörstjórna, auk kostnaðar við húsnæði til kjörfunda, atkvæðakassa og önnur áhöld vegna kosninganna.
Að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur verið ákveðið að greiða sveitarfélögum vegna framangreindra kostnaðarþátta, vegna kosninganna 25. september 2021. Fjárhæðirnar sem nú eru til úthlutunar hafa hækkað um 7% frá einingarverðum við framkvæmd forsetakosninga 2020.
Við ákvörðun fjárhæðanna hefur verið tekið tillit til þess að búast má við auknum kostnaði sveitarfélaganna við framkvæmd kosninganna vegna þess ástands sem Covid-19 farsóttin hefur skapað. Er nauðsynlegt að sveitarfélögin taki mið af nauðsynlegum sóttvörnum á kjörstöðum í undirbúningi sínum, t.d. að teknu tilliti til þess hvort fjölga þurfi kjörstöðum. Er greiðslunum ætlað að koma til móts við allan kostnað af framkvæmdinni í sveitarfélögunum.
- Fyrir hvern kjósanda á kjörskrá, eins og fjöldi þeirra var í lok kjördags, skv. 27. gr. laga nr. 24/2000, 783 krónur.
- Fyrir hvern kjörstað sem sveitarstjórn ákvað skv. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 24/2000, 583.000 krónur.
Sveitarfélög geta óskað greiðslu á framangreindum kostnaði með því að senda dómsmálaráðuneytinu rafrænan reikning, auk upplýsinga, sem staðfestar eru af kjörstjórn sveitarfélagsins, um fjölda kjósenda og fjölda kjörstaða. Upplýsingar um rafræna reikninga er að finna á vefsíðu Fjársýslu ríkisins.