Tvær sameiningar sveitarfélaga samþykktar en ein felld

Laugardaginn 19. febrúar sl. fóru fram þrennar sameiningarkosningar. Tvær sameiningar voru samþykktar en ein felld.

Skagafjörður verður eitt sveitarfélag

Íbúar Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags verður kjörin 14. maí næstkomandi og tekur sameinað sveitarfélag gildi 15 dögum síðar.

Í Akrahreppi var kjörsókn 86,5 prósent. Alls greiddu 135 atkvæði, en 156 voru á kjörskrá. 

  • Já sögðu 84
  • Nei sögðu 51
  • Auðir og ógildir 0

Í Sveitarfélaginu Skagafirði var kjörsókn var 35,5% prósent. Alls greiddu 1.022 atkvæði, en 2.961 var á kjörskrá.

  • Já sögðu 961
  • Nei sögðu 54
  • Auðir og ógildir voru 7

Húnvetningar samþykktu sameiningu

Íbúar Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps samþykktu sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags verður kjörin 14. maí næstkomandi og tekur sameinað sveitarfélag gildi 15 dögum síðar.

Í Blönduósbæ var kjörsókn 64,5 prósent. Alls greiddu 411 atkvæði, en 637 voru á kjörskrá.

  • Já sögðu 400
  • Nei sögðu 9
  • Tveir kjörseðlar voru ógildir

Í Húnavatnshreppi var kjörsókn 82,78% prósent. Alls greiddu 250 atkvæði, en 302 voru á kjörskrá.

  • Já sögðu 152
  • Nei sögðu 92
  • Auðir og ógildir voru 6

Sameining á Snæfellsnesi felld

Kosið var um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar. Í Eyja- og Miklaholtshreppi var kjörsókn var 74,6 prósent. Alls greiddu 62 atkvæði, en 83 voru á kjörskrá.

  • Já sögðu 20
  • Nei sögðu 41
  • Einn kjörseðill var ógildur

Í Snæfellsbæ var kjörsókn var 35 prósent. Alls greiddu 412 atkvæði, en 1.174 voru á kjörskrá.

  • Já sögðu 207
  • Nei sögðu 201
  • Auðir seðlar voru fjórir

Tillagan er því felld og verður ekki af sameiningu Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps.

Sveitarfélögum fækkar um a.m.k. þrjú

Sveitarfélögum mun fækka um þrjú að afloknum sveitarstjórnarkosningum þann 14. maí nk. Auk þeirra sameininga sem getið er um hér að framan höfðu sveitarfélögin Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur samþykkt sameiningu. Verða því sveitarfélögin ekki fleiri en 66 að afloknum sveitarstjórnarkosningunum nk. vor.

Þá eru Stykkishólmsbær og Helgafellssveit í sameiningarviðræðum og stefnt er að því að atkvæðagreiðsla um sameininguna fari fram 26. mars nk. Hið sama á við um mögulega sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepp en þar fer atkvæðagreiðsla einnig fram 26. mars.