Út eru komnar tvær samanburðarskýrslur á vegum Eurydice: The Organisation of School Time in Europe Primary and General Secondary Education 2020/21 og The Organisation of the Academic Year in Europe 2020/21.
Í skýrslunum er að finna ýmsar upplýsingar um fjölda skóladaga í hverju landi, sem og upplýsingar um lengd og tímasetningu skólafría.
Fjöldi skóladaga á grunnskólastigi í flestum Evrópulöndum er á bilinu 170 til 190 dagar á ári. Í Danmörku og á Ítalíu eru skóladagar talsvert fleiri eða 200 talsins. Á Íslandi er skóladagafjöldinn 180 dagar, þar af skulu fullir kennsludagar vera 170 að lágmarki. Þannig er gert ráð fyrir að allt að tíu dagar fari í annað en beina kennslu, þ. á m. skólasetningu og skólaslit, foreldrafundi o.fl. Í sautján Evrópulöndum eru skóladagar milli 181 og 190. Fæstir skóladagar eru í Albaníu, í Rúmeníu og á Möltu.
Þetta kemur fram í yfirliti Eurydice um skipulag skólastarfs í 38 löndum Evrópu, sem lesa má í heild sinni hér. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um fjölda skóladaga í hverju landi, sem og upplýsingar um lengd og tímasetningu skólafría.
Sumarfrí, jólafrí og aðrir almennir frídagar
Sumarfrí eru almennt lengst í löndum Suður-Evrópu og í baltnesku löndunum, 11 vikur eða meira. Í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi eru sumarfríin 9 til 11 vikur. Stystu sumarfríin eru í Bretlandi, Þýskalandi, Sviss, Hollandi og Danmörku, sjö vikur eða styttri, lengri á Ítalíu og í Portúgal (u.þ.b. þrír mánuðir) og lengst í Albaníu og Búlgaríu eða 15 vikur. Hér á landi er sumarfrí í grunnskólum að jafnaði frá 5. júní til 20. ágúst. Í sumum löndum eins og Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Spáni og Ítalíu, eru frí tekin á mismunandi tíma í hverju héraði, eftir ákvörðun sveitarfélaga. Yfirleitt er þó heildardagafjöldinn sá sami innan hvers lands.
Í flestum löndum eru jólafrí um tveggja vikna löng. Þó aðeins einn dagur í Tyrklandi og ein vika í Slóveníu, en í allt að þrjár vikur í Þýskalandi. Á haustin fá börnin vikufrí í 19 þátttökulöndum, í öðrum löndum eru fríin 2-3 dagar (t.d. hér á landi en einnig í Tékklandi, Möltu og Bretlandi). Páskafrí eru yfirleitt ein til tvær vikur, tekið á breytilegum tíma milli ára. Í Sviss er páskafríið þrjár vikur en aðeins nokkrir dagar í Albaníu, Litáen og Finnlandi. Ekkert páskafrí er í Bosníu-Hersegovínu og Svartfjallalandi. Almennt er tímasetning skólafría breytileg milli landa að undanskildu jólafríi. Opinberir frídagar á Íslandi eru 13 á þessu skólaári, flestir í desember, apríl og maí og falla þeir að mestu leyti inn í jólafrí og páskafrí.
Sambærilega skýrslu Eurydice um skipulag háskólastigsins má nálgast hér