Tjaldað til einnar nætur? Málþing Velferðarvaktarinnar

Velferðarvaktin stóð fyrir fjölmennu málþingi í gær undir yfirskriftinni „Tjaldað til einnar nætur?“ Á málþinginu var fjallað um stöðu tekjuminni hópa á húsnæðismarkaði.

Heiða Björg Hilmisdóttir flutti erindi á málþinginu í gær.

Erfiðleikar á húsnæðismarkaði og einkum aðstæður þeirra sem búa við það óöryggi sem fylgir því að eiga í húsnæðisvanda, hafa lengi verið til umræðu í samfélaginu. Markmiðið með málþinginu var að fá fram raunsæja mynd af stöðunni og ræða hvernig bregðast megi við henni. Málþingið var tekið upp og má sjá upptöku hér fyrir neðan.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, héldu erindi á málþinginu þar sem upplýst var um stöðu og eftirfylgni rammasamnings um húsnæðisuppbyggingu sem undirritaður var í júlí 2022.

Lífið á leigumarkaði 

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, fjallaði um stöðuna á leigumarkaði og kynnti einnig niðurstöður könnunar á stöðu leigjenda sem framkvæmd var í maí sl. Ragnar Þór Ingólfsson fór yfir stöðuna hjá Bjargi íbúðafélagi, sem ætlað er að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar, sagði frá því hvernig staðan á húsnæðismarkaði hefur áhrif á þann hóp sem höllustum fæti stendur og þarf að leita aðstoðar hjálparsamtaka. 

Margvísleg erindi og umræður á borðum

Þórólfur Júlían Dagsson, stofnandi hóps heimilislausra Íslendinga, flutti erindi á málþinginu og María Pétursdóttir, formaður húsnæðismálahóps ÖBÍ réttindasamtaka, kynnti nýja skýrslu samtakanna um húsnæðismál fatlaðs fólks. 

Þá voru fluttar nokkrar örsögur en þær sannar sögur fólks sem félagsráðgjafar tóku saman í tilefni Alþjóðadags félagsráðgjafar fyrr á þessu ári og lýsa afar vel þeim veruleika sem tekjulágir hópar búa við á Íslandi í dag.

Að loknum erindum fóru fram umræður á borðum þar sem gestum gafst kostur á að ræða þær upplýsingar sem fram komu í erindum dagsins og ræða hvaða úrbætur væru brýnastar.