Tilraunaverkefni í húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni hrundið af stað

Dalabyggð, Vesturbyggð, Snæfellsbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Norðurþing, Hörgársveit og Seyðisfjarðarkaupstaður taka þátt í tilraunaverkefni vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni. Verkefninu er ætlað að rjúfa þá stöðnun í nýbyggingum sem ríkt hefur víða á landsbyggðinni, jafnvel þó að íbúafjölgun eigi sér stað samfara atvinnuuppbyggingu. 

Dalabyggð, Vesturbyggð, Snæfellsbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Norðurþing, Hörgársveit og Seyðisfjarðarkaupstaður taka þátt í tilraunaverkefni vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni. Verkefninu er ætlað að rjúfa þá stöðnun í nýbyggingum sem ríkt hefur víða á landsbyggðinni, jafnvel þó að íbúafjölgun eigi sér stað samfara atvinnuuppbyggingu. 

Verkefni á vegum tilraunasveitarfélags getur m.a. falið í sér nýbyggingar, endurbætur á eldra íbúðarhúsnæði eða breytingar á atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, svo að dæmi séu nefnd.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, kynnti verkefnið á fundi sem fram fór á Húsavík í dag. Íbúðalánasjóður auglýsti eftir þátttakendum í haust og sóttu alls 33 sveitarfélög um frá öllum landshlutum. Hinum 26 sveitarfélögunum verður boðið að ræða við Íbúðalánasjóð um framhald verkefna á þeirra vegum. Framhaldið ræðst m.a. af reynslu tilraunasveitarfélaga.

Fyrirmyndir að verkefninu hafa verið sóttar víða, þar á meðal til Noregs, en þar í landi hefur stórt hlutfall sveitarfélaga á landsbyggðinni tekist á við sambærilegar áskoranir og íslensk sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins.

Tilraunasveitarfélögin eru hvött til samstarfs við Bríeti, nýstofnað landsbyggðarleigufélag, í eigu Íbúðalánasjóðs.

Markmið tilraunaverkefnisins er að leita nýrra leiða til þess að bregðast við húsnæðisvandanum sem ríkir víðs vegar á landsbyggðinni vegna þess að íbúða- og leigumarkaður er óvikur og skortur er á viðunandi íbúðarhúsnæði. Verður, í samræmi við stefnumarkandi byggðaáætlun, horft sérstaklega til þeirra svæða þar sem húsnæðisskortur hamlar atvinnuuppbyggingu. 

Sérstakur starfshópur, sem í sátu fulltrúar Íbúðalánasjóðs, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar, fór yfir umsóknir sveitarfélaga um þátttöku í verkefninu. Val á umsóknum tók mið af því, að sveitarfélögin standa hver um sig frammi fyrir mismunandi áskorunum á mismunandi svæðum á landinu. Er með því móti verið að leitast við, að fleiri sveitarfélög en þau sem taka þátt geti nýtt sér þær leiðir, sem unnið er með í tilraunaverkefnum.