Jákvæð umhverfisáhrif, hollt mataræði, matarsóun, rekjanleiki og reiknilíkan fyrir kolefnisspor er á meðal þess sem fjallað er um í innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila. Vonir standa til þess að stefnan nýtist einnig sveitarfélögum ásamt öðrum opinberum aðilum.
Jákvæð umhverfisáhrif, hollt mataræði, matarsóun, rekjanleiki og reiknilíkan fyrir kolefnisspor er á meðal þess sem fjallað er um í innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila. Vonir standa til þess að stefnan nýtist einnig sveitarfélögum ásamt öðrum opinberum aðilum.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fékk nýlega í hendur skýrslu um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila. Skýrsluna gerði til þess skipaður starfshópur. Að baki liggur sá vilji, að ríkisaðilar gangi á undan með góðu fordæmi og verði fyrirmynd sveitarfélaga ásamt öðrum opinberum aðilum.
Í stefnunni eru lögð til þrjú meginmarkmið og aðgerðir til að ná þeim. Ríkið kaupir matvæli fyrir um 3 ma.kr. á ári og ljóst er að slíkur stórkaupandi getur haft víðtæk áhrif til góðs á eftirspurn matvæla og nýsköpun í innkaupum.
Á meðal þess sem stefnan tekur til má nefna umhverfisáhrif, matarsóun, matvælamerkingar, rekjanleika, reiknilíkan fyrir kolefnisspor, næringarútreikninga, innkaupaferla, eftirfylgni, fræðslu og viðurkenningu á góðum starfsháttum.
Lagt er til að innkaupastefna ríkisins stuðli að jákvæðum umhverfisáhrifum við framleiðslu, flutninga og umsýslu matvæla. Þá er lögð áhersla á að máltíðir í mötuneytum séu í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis um hollt mataræði og að neytendur séu upplýstir um uppruna og næringargildi matarins.
Þá er ekki talið óeðlilegt að innkaupastefna matvæla sé í sífelldri mótun vegna ytri aðstæðna, tæknivæðingar og markaðsumhverfis.
Drög að innkaupastefnunni voru í samráðsgátt stjórnarráðsins í 14 daga.
- Innkaupastefna matvæla fyrir ríkisaðila - skýrsla starfshóps