Tillögum vegna úttektar Evrópumiðstöðvar fylgt eftir

Framkvæmdastjórar sveitarfélaga sem reka grunnskóla hafa verið beðnir um að upplýsa um úthlutunarreglur sem unnið er eftir við ráðstöfun fjármagns vegna stuðnings við nemendur með sérþarfir í grunnskólum, nemendur af erlendum uppruna og nemendur sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður. 

Framkvæmdastjórar sveitarfélaga sem reka grunnskóla hafa verið beðnir um að upplýsa um úthlutunarreglur sem fjármagni er ráðstafað eftir til stuðnings við nemendur með sérþarfir í grunnskólum, nemendur af erlendum uppruna og nemendur sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður. 

Bréf þessa efnis hefur verið sent framkvæmdastjórum og fræðslustjórum ásamt spurningalista sem ofangreind sveitarfélög eru beðin um að fylla út. 

Öflun þessara upplýsinga er liður í eftirfylgni við tillögur sem settar voru fram í kjölfar úttektar Evrópumiðstöðvar á menntun fyrir alla á Íslandi og menntamálaráðuneytið vinnur nú að ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hagaðilum innan menntakerfisins. Spurt er um fjárframlög til viðbótar við framlög frá jöfnunarsjóði, þar sem tillögurnar snerta m.a. skilvirkni fjárveitinga sem merktar eru stuðningi við nemendur með sérstakar námsþarfir. 

Ekki er á þessu stigi verið að skoða úthlutun fjármagns til almenns grunnskólanáms, sérskóla eða sérhæfðra sérdeilda heldur einungis til sérkennslu og viðbótarstuðnings.

Samband íslenskra sveitarfélaga telur brýnt að sú greining sem nú á sér stað á sérfræði- og stuðningsþjónustu í leik- og grunnskólum skili áreiðanlegum niðurstöðum. Í helstu niðurstöðum úttektar Evrópumiðstöðvar kemur m.a. fram að umtalsverðum fjármunum sé varið til þjónustunnar og að bæta megi skilvirkni í rekstri hennar.

Sambandið hvetur þau sveitarfélög sem reka leik- og grunnskóla til þess að bregðast hratt og örugglega við umræddum spurningalista og veita þannig þýðingarmiklar upplýsingar um stærsta einstaka rekstrarlið hvers sveitarfélags, fræðslumálin.