Tilfærsla verkefna Innheimtustofnunar til ríkisins

Þann 2. júní sl. samþykkti Alþingi breytingar á lögum sem fela það í sér að verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga munu færast til ríkisins frá og með 1. janúar 2024.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra á Blönduósi mun taka að sér stjórnsýsluverkefni Innheimtustofnunar, en aðsetur starfsfólks verður þó einnig á höfuðborgarsvæðinu og á Ísafirði.

Sambandið hefur lengi lagt áherslu á að verkefni Innheimtustofnunar yrðu færð frá sveitarfélögum til ríkisins en í skýrslum nokkurra starfs- og verkefnahópa frá árunum 2002, 2007, 2010 og 2021, sem m.a. var falið að taka reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til endurskoðunar, var komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að verkefni Innheimtustofnunar yrðu færð til ríkisins og með því sameinuð öðrum innheimtukerfum ríkissjóðs. Samþykkt Alþingis á breytingunum er því ánægjuefni.

Töluverðar umræður áttu sér stað um lækkun á framlagi ríkisins til Jöfnunarsjóð vegna tilfærslunnar og lagði sambandið fram allskonar tillögur í þeim efnum. Niðurstaðan varð sú að framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga lækkar um 0,075% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs og tryggingagjöldum, úr 2,111% í 2,036%, sbr. a-lið 8. gr. a laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, eða sem samsvarar um 750 m.kr.

Þó svo að verkefni Innheimtustofnun séu færð til sýslumanns er stofnunin þó ekki að fullu lögð niður strax. Nafn hennar breytist í IHS og mun þriggja manna verkefnisstjórn hafa yfirumsjón með réttindum, skyldum, eignum og skuldbindingum stofnunarinnar, öðrum en þeim sem tengjast stjórnsýsluframkvæmd verkefnanna. Að fjórum árum liðnum, sem samsvarar almennum fyrningartíma krafna, er síðan gert er ráð fyrir að stofnunin verði endanlega lögð niður (sjá nánar í minnisblaði ráðuneytisins).