Tíðindi af opinberum innkaupum

Vegna Covid-19 hafa opinberir verkkaupar í auknu mæli opnað tilboð með rafrænum aðferðum, nú er t.a.m. rétti tíminn til að undirbúa örútboð á námsgögnum fyrir næsta skólaár.

Örútboð á námsgögnum

Nú er rétti tíminn til að undirbúa örútboð á námsgögnum fyrir næsta skólaár. Ríkiskaup hafa síðustu ár farið í sameiginlegt örútboð fyrir sveitarfélög á námsgögnum og er nú í undirbúningi slíkt útboð fyrir skólaárið 2021-2022. Sveitarfélög sem hafa áhuga á að taka þátt í slíku örútboði er bent á að hafa samband við Grétar Erlingsson á netfangið gretar@rikiskaup.is

Samtalsvettvangur um opinber innkaup

Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga voru haldin tvö erindi um opinber innkaup þar sem Björgvin Víkingsson, nýr forstjóri Ríkiskaupa fjallaði um Ríkiskaup framtíðarinnar og Bryndís Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur á lögfræði- og velferðarsviði Sambandsins hélt erindið „Tölum um opinber innkaup“. Mikill samhljómur var í erindum þeirra þar sem rætt var meðal annars um mikilvægi þess að auka samtal um opinber innkaup. Með auknu samtali starfsmanna sveitarfélaga um opinber innkaup er hægt að skapa vettvang til að miðla af reynslu starfsmanna, undirbúa skýrari skilaboð og samtal við Ríkiskaup og finna grundvöll fyrir sameiginleg útboð svo dæmi séu nefnd. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í slíkum samtalsvettvangi starfsmanna sveitarfélaga um opinber innkaup er bent á að hafa samband við Bryndísi á netfangið bryndis@samband.is

Opnun tilboða með rafrænum aðferðum

Vegna covid-19 hafa opinberir verkkaupar í auknu mæli opnað tilboð með rafrænum aðferðum. Samtök iðnaðarins hafa vakið athygli á því að í sumum tilfellum hefur sú framkvæmd ekki verið útfærð með fullnægjandi hátti. Tryggja þarf þegar opnun tilboða fer fram með rafrænum hætti, án þess að bjóðendur séu viðstaddir, að verðtilboð séu ekki opnuð áður en lausn á verkefni sé metin út frá valforsendum og henni gefin einkunn. Sveitarfélög eru hvött til að kynna sér erindi Samtaka iðnaðarins en þar má finna gagnlegar ábendingar um framkvæmd opnun tilboða með rafrænum aðferðum.