13. maí 2019

Uppbyggingarsjóður EES kynnir sveitarstjórnaráætlun fyrir Pólland

Uppbyggingarsjóður EES hleypti nýlega af stokkunum styrktaráætlun vegna sveitarstjórna í Póllandi. Markmið sjóðsins er að draga úr félags- og efnahagslegu misræmi innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og efla tvíhliða samstarf á milli EES- og EFTA-ríkjanna annars vegar og viðtökuríkja hins vegar.

Aðild Íslands að uppbyggingarsjóðnum veitir íslenskum aðilum, þ.á.m. sveitarfélögum og stofnunum þeirra, tækifæri til samstarfs við aðila í viðtökuríkjum. Alls eru viðtökuríki uppbyggingarsjóðsins 15 talsins eða Búlgaría, Eistland, Grikkland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Króatía, Tékkland og Ungverjaland.

Sveitarstjórnaráætlunin nemur um 100 milljónum evra og er ætlað að styrkja verkefni í umhverfis- og loftslagsmálum, félagslegum úrræðum og efnahags- og atvinnuuppbyggingu.

Stefnt er að því að 15 sveitarfélög í Póllandi hljóti styrki til verkefna sem miða að endurbótum í áðurnefndum málaflokkum. Verður upphæð styrkja á bilinu 3-10 milljónir evra og þar sem tvíhliða samstarf er einn af hornsteinum uppbyggingarsjóðsins verður leitast við að koma á samstarfi á milli pólsku sveitarfélaganna fimmtán og sveitarfélaga í Noregi og á Íslandi.

Er sveitarfélögum, sem hafa áhuga á slíku samstarfi, bent á að hafa samband við Óttar F. Gíslason, forstöðumann Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga, í síma 515 4902 eða á netfanginu ottarfreyr@samband.is.