07. des. 2017

Sameiningar sveitarfélaga í Eistlandi

Á síðasta ári ákvað ríkisstjórn Eistlands að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á sveitarstjórnarstigi landsins og leitaði í smiðju til Finnlands í  þeim efnum. Finnar sóttu hins vegar sína fyrirmynd til Danmörku, þar sem stórfelldar sameiningar sveitarfélaga áttu sér stað í kringum aldamótin. Þá  byggja yfirstandandi sameiningarferli í Noregi einnig á þessum grundvelli.

Í öllum tilvikum eiga þessi verkefni það sameiginlegt að ríkisvaldið skilgreinir lágmarksíbúafjölda ásamt öðum þeim markmiðum sem stefnt er að, auk þess sem sameiningarsveitarfélög fá fjárhagslega umbun. Innan þessa ramma hafa sveitarfélög síðan svigrúm til að semja sín á milli um framkvæmd sameiningarinnar. Ef samningaferli skilar hins vegar ekki tilætluðum árangri fer lögþvingað sameiningarferli í gang.

Í Eistlandi var sveitafélögum með færri íbúa en 5000 gefinn frestur út þetta ár að hefja sameiningarviðræður og er árangurinn almennt séð talinn góður það sem af er.

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkti nýlega skýrslu um stöðu Eistlands gagnvart Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga og þar er að finna upplýsingar og mat á sameiningarátakinu.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að meirihlutinn af 213 sveitarfélögum landsins hafi samþykkt að ganga til sameiningarviðræðna eða 183. Landið, sem er rúmir 45 þús. ferkílómetrar að stærð og með liðlega 1,3 milljón íbúa, er auk þess skipt upp í 15 landshluta (e. counties), sem einnig stendur til að fækka. Það hefur þótt greiða fyrir málum að sveitarfélögum er gefinn frjáls taumurinn í þeim skilningi, að heil sveitarfélög eða hlutar geta sameinast, allt eftir því hvernig landið liggur á hverjum stað.

Undantekningar, sem gerðar eru á dreifbýlustu svæðum landsins frá 5.000 íbúa lágmarkinu,  hafa sætt gagnrýni fyrir að vera of þröngt skilgreindar. Lágmarkið hefur svo einnig verið gagnrýnt fyrir að vera sums staðar of lágt m.t.t. framtíðarþarfa viðkomandi svæðis.

Þá hefur sætt talsverðri gagnrýni að þau sveitarfélög sem hefja að eigin frumkvæði sameiningarviðræður njóti mun hærri ríkisstyrkja til að fylgja sameiningu eftir en þau sem sæta þvinguðu ferli. Munar allt að helmingi í ljósi þess, að styrkir sem sveitarfélög í fyrrnefnda flokknum fá nema €300.000 til €800.000, allt eftir fjölda íbúa, á meðan þau sem lenda í þeim síðarnefnda geta einungis fengið €150.000 til €400.000 í styrk.

Helsta áhyggjuefni skýrslugjafa lýtur þó að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og fjármögnun verkefna á sveitarstjórnarstigi, sem er talið of óljóst eins og núverandi löggjöf er háttað. Er mælst til þess að eistnesk stjórnvöld hugi sem fyrst að lagabótum í þeim efnum.

Ljósmyndin sýnir núverandi landshluta í Eistlandi.

·       Local democracy in Estonia – Coucil of Europe, Congress of Local and Regional Authorities