07. maí 2014

Dreifstýring og hlutverk millistjórnsýslustiga viðfangsefni á fundi framkvæmdastjóra evrópskra sveitarfélagasambanda í Haag

  • CEMR framkvstj fundur Haag maí 2014

Dagana 6. og 7. maí hittust framkvæmdastjórar evrópska sveitarfélaga-sambanda í Haag undir merkjum Evrópusamtaka sveitarfélagasambanda (CEMR). Guðrún D. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Brussel-skrifstofu, sat fundinn fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Fyrir utan hefðbundin stjórnarstörf fjölluðu framkvæmdastjórarnir m.a. um hlutverk svokallaðra millistjórnsýslustiga („intermediate authorities“) í lagsskiptri stjórnsýslu. Fyrirkomulag valdskiptingar í Evrópuríkjum er afar mismunandi. Almennt er tilhneiging til aukins dreifræðis og efnahagskreppan leiddi víðast til endurskoðunar á hlutverki og ábyrgð hinna ólíku stjórnsýslustiga, m.a. aukins vægis sk. millistjórnsýslustiga, einkum í stærri ríkjum og sambandsríkjum. Með millistjórnsýslustigum er átt við eins konar héruð, s.s. provinces í Hollandi, départements í Frakklandi og landkreise í Þýskalandi. Víða hefur ábyrgð á flóknari viðfangsefnum verið flutt annað hvort frá miðlægum stjórnvöldum til millistjórnsýslustiga eða jafnvel frá sveitarfélögum til millistjórnsýslustigs. Markmiðið er að hagræða og auka skilvirkni og víða er þrýst á sameiningu sveitarfélaga til að skapa stærri stjórnsýslueiningar sem eru m.a. betur í stakk búnar til að taka við styrkjum úr byggðasjóðum sambandsins. Hlutverk millistjórnsýslustigsins er mismunandi eftir löndum en þar sem það er ekki fyrir hendi hafa sveitarfélög víða gert samstarfssamninga um að veita þjónustuna mörg saman eða álíka kerfi hefur verið komið á með sameiningu sveitarfélaga, þvingaðri eða óþvingaðri. Á Íslandi er ljóst að óháð sparnaði og hagræðingu, þá hafa minnstu sveitarfélögin takmarkaða burði til að taka við flóknum verkefnum frá ríkinu, eða jafnvel til að taka þátt í flóknum samstarfsverkefnum með stærri sveitarfélögum. Á fundinum var sérstaklega fjallað um mismunandi hlutverk millistjórnsýslustigsins eftir löndum, tækifæri og áskoranir sem því fylgir og hvaða hlutverki CEMR getur gegnt til að efla millistjórnsýslustigið almennt.