04. des. 2013

Staðbundið lýðræði og þróun í kjölfar falls Sovétríkjanna til umræðu hjá stefnumótunarnefnd CEMR

  • cemr3

Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að Evrópusamtökum sveitarfélaga, Council of European Municipalities and regions (CEMR). Samtökin eru stærstu samtök sveitarstjórnarstigsins í Evrópu. Aðild eiga rúmlega 50 landssambönd bæja, sveitarfélaga og héraða frá 39 löndum Evrópu. Samtökin eru í fyrirsvari fyrir um 100.000 sveitarfélög og héruð í Evrópu.

Stefnumótunarnefnd CEMR fundar venjulega tvisvar á ári en að þessu sinni sátu fundinn fyrir Íslands hönd Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og Jórunn Einarsdóttir, bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjabæ auk Önnu Guðrúnar Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Guðrúnar D. Guðmundsdóttur, forstöðumanns Brussel-skrifstofu sambandsins.

Borgarstjóri Prag, Tomáš Hudeček, bauð fundarmenn velkomna ásamt varforseta Evrópuþingsins Oldřich Vlasák. Tomáš vísaði í ávarpi sínu til yfirstandandi óeirða í Kíev og minnti fundarmenn á að lýðræði væri ekki gefið í Evrópu og um það þyrfti að standa dyggan vörð. Fundurinn samþykkti yfirlýsingu til stuðnings lýðræði í Úkraínu.

Annemarie Jorritsma kjörin forseti samtakanna fyrst kvenna

jorritsma-0

Annemarie Jorritsma, bæjarstjóri Almere í Hollandi, forseti hollenska sveitarfélagsambandsins og fyrrverandi ráðherra var fyrst kvenna til að vera kjörin forseti samtakanna og staðfestar voru tilnefningar fyrir 2014-2016 til stefnumótunarnefndar og framkvæmdastjórnar samtakanna. Ákveðið var að allsherjarþing CEMR muni fara fram í Nikósíu, Kýpur árið 2016. Kosið var á á milli Nikósíu og Haag í Hollandi.

Uppbygging borga í Austur-Evrópu eftir fall Sovétríkjanna

UN-Habitat hefur nýlega birt áhugaverða skýrslu um þróun borga í Austur-Evrópu síðustu 20 ár. Borgir í fyrrum Sovétríkjunum glíma við hefðbundin vandamál s.s. afleiðingar efnahagskreppunnar, orkumál, lélega innviði, fátækt og lýðfræðilegar breytingar á sama hátt og aðrar evrópskar borgir en að auki áskoranir sem fylgja því að samfélaginu og hinu pólitíska kerfi hefur verið algerlega umbylt. Eftir fall múrsins var almennt talið að markaðshagkerfi og dreifræði myndi leysa öll vandamál en sú hefur ekki reynst raunin, oft vegna þessa gripið var til aðgerða í flýti og að óígrunduðu máli. Aukin dreifstýring og staðbundið lýðræði hefur víða reynst sveitarstjórnarstiginu erfitt þar sem ekki hefur nægt fjármagn fylgt nýjum skyldum og stjórnsýslan er ekki stakk búin til að taka við nýjum verkefnum. Einkavæðing félagslegs húsnæðis án viðunandi stefnumótunar og regluverks hefur víða skapað alvarlegan húsnæðisvanda og vandkvæði í skipulagsmálum. Hópar sem eiga undir högg að sækja hafa ekki efni á húsnæði sínu né að halda því við og hátt leiguverð hampar hreyfanleika vinnuafls. Aðild að Evrópusambandinu hefur einnig haft mikil áhrif og margar borgir glíma við fólksflótta yngri kynslóðarinnar og erfiðar lýðfræðilegar breytingar sem hafa áhrif á tekjustofna og þjónustustig. Umhverfismál er einnig ofarlega á baugi en aukið fjármagn og upplýsing er nauðsynlegt til að bæta borgarumhverfið og gera það heilsusamlegra. Loks eru samgöngumál erfið viðureignar vegna slakra samgöngumannvirkja og skorts á nauðsynlegum umbótum í almenningssamgöngum. Víða hefur þó tekist vel til, bæjarstjóri Dresden, Helma Orosz, og Oldřich Vlasák, lýstu jákvæðri þróun í Dresden og Prag.

Staðbundið lýðræði og dreifræði

Á fundinum var þriðja skýrsla alþjóðasamtaka sveitarfélaga og borga (UCLG) um dreifræði kynnt. Sjónum er einkum beint að grunnþjónustu í þéttbýli og hlutverki sveitarfélaga að veita grunnþjónustu. Lissabon-sáttmálinn hefur haft umtalsverð áhrif á sveitarstjórnarstigið og veitingu almannaþjónustu. Sjálfræði sveitarfélaga er mjög mismunandi eftir stjórnskipun landa en samkvæmt skýrslunni verða helstu áskoranirnar sem almannaþjónustuveitendur munu standa frammi fyrir í framtíðinni tengjast áhrifum kreppunnar, lýðfræðilegum breytingum, misrétti og fátækt, sjálfbærni og loftslagbreytingum, þróun á sviði upplýsingatækni og kröfum um aukna skilvirkni og bætta þjónustu.

Fjármál og starfsáætlun CEMR til umræðu

Á fundinum var ársreikningur og framgangur starfsáætlunar síðasta árs til umræðu og fjallað var um nýtt vinnulag samtakanna sem miðar að því að tryggja skilvirkni og auka þátttöku kjörinna fulltrúa í starfi þeirra. Fjárhags- og starfsáætlun CEMR 2014 var einnig samþykkt, forgangsmál á árinu munu deilast á sex verkefnasvið:

  • Lýðræði, borgararnir og stækkunarmál
  • Orkunýtni og umhverfismál
  • Efnahagsleg, félagsleg og svæðisbundin samheldni
  • Samstarf og alþjóðamál
  • Sveitarfélög sem atvinnurekendur og veitendur þjónustu
  • Útgáfu og kynningarmál

CEMR hefur einnig samþykkt stefnuskrá vegna kosninga til Evrópuþingsins næsta vor auk umsagna og ályktana um ýmis mál.