27. mar. 2013

Nýtt vefsetur um innleiðingu Evrópusáttmála sveitarfélaga um jafnrétti kynjanna tekur til starfa

  • observatory-logo
CEMR hefur hleypt af stokkunum glæsilegu vefsetri sem ætlað er að aðstoða sveitarfélög við innleiðingu og framkvæmd Evrópusáttmála sveitarfélaga um jafna stöðu kvenna og karla. Á síðunni er að finna allar upplýsingar um sáttmálann, jafnréttisáætlanir og ýmis fleiri tæki til að aðstoða sveitarfélög við jafnréttistarf.

Evrópusáttmáli sveitarfélaga um jafnrétti kynjanna

Evrópusáttmáli sveitarfélaga um jafnrétti kynjanna er frá árinu 2005 en CEMR átti frumkvæði að gerð hans. Um 1000 sveitarfélög og héruð í 24 landi eru aðilar, þ. á m. sex íslensk sveitarfélög, en undirritun felur í sér pólitíska viljayfirlýsingu um að vinna að framgangi jafnréttismála á öllum sviðum, frá félagsþjónustu til skipulagsmála. Íslensku sveitarfélögin hafa unnið saman að innleiðingu Evrópusáttmálans og notið aðstoðar Jafnréttisstofu og sambandsins.

Sáttmálinn spannar öll svið sveitarfélaga frá félagsþjónustu til skipulagsmála. Hann býður upp á aðferðir fyrir sveitarfélög til að ná fram jafnrétti í reynd. Lögð er áhersla á samþættingu kynjasjónarmiða á öllum stigum og sviðum og mati á áhrifum stefnumótunar og ákvörðunartöku á hvort kynið fyrir sig. Tryggja á jafnan aðgang kynjanna að ákvörðunartöku og þjónustu sem taki mið af þörfum bæði karla og kvenna. Mælt er fyrir um aðgerðir gegn staðalímyndum og fræðslu til starfsfólks. Taka á sérstaklega á margfaldri mismunun, sem fyrir utan kyn getur átt rót sína að rekja til kynþáttar, kynhneigðar, aldurs o.fl. Sveitarfélög skulu beita sér fyrir því að samstarfsaðilar þeirra virði jafnréttissjónarmið, svo sem í samningum um kaup á vörum og þjónustu og í samstarfssamningum við félagasamtök.

Sveitarfélög skulu innan tveggja ára hafa gert aðgerðaráætlun um hvernig þau muni framkvæma ákvæði samningsins. Þau hafa svigrúm til að forgangsraða markmiðum og setja sér tímaramma. Á landsfundi jafnréttisnefnda 2009 á Ísafirði undirrituðu formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og framkvæmdastýra Jafnréttisstofu samstarfsyfirlýsingu um aðstoð Jafnréttisstofu við sveitarfélög vegna innleiðingu sáttmálans.

.