26. feb. 2013

Fyrsti fundur sameiginlegrar ráðgjafarnefndar Íslands og Svæðanefndar ESB

  • SIS_Althjodamal_760x640

Þann 4. mars nk. verður haldinn fyrsti fundur í sameiginlegri ráðgjafarnefnd Íslands og Svæðanefnd ESB. Markmiðið með stofnun nefndarinnar er að undirbúa íslenska sveitarstjórnarstigið undir þátttöku í Svæðanefndinni, ef Ísland gerist aðili að ESB. Hliðstæðar nefndir hafa þegar tekið til starfa á milli Alþingis og Evrópuþingsins og á milli aðila vinnumarkaðarins og þriðja geirans á Íslandi og  Félagsmálanefndar Evrópu.
Í Svæðanefnd ESB, „Committee of the Regions“ eða „CoR“, eiga sæti kjörnir fulltrúar úr sveitarfélögum og héruðum í aðildarríkjum ESB. Hún er umsagnaraðili um alla stefnumótun og löggjafartillögur ESB sem snerta sveitarfélög og héruð. Halldór Halldórsson formaður sambandsins fer með formennsku í sameiginlegu ráðgjafarnefndinni af hálfu Íslands en af hálfu ESB fer hin ítalska  Mercedes Bresso með formennsku en hún var áður forseti Svæðanefndarinnar og sýndi þá mikinn áhuga á stofnun sameiginlegrar ráðgjafarnefndar.
Á þessum fyrsta fundi verður m.a. fjallað um hlutverk og þátttöku íslenskra sveitarfélaga í aðildarferlinu og í evrópskum byggðamálum ef til aðildar kemur. Fundurinn verður haldinn í borgarstjórnarsal Ráðhússins og er öllum opinn.